141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[13:00]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú væri freistandi að svara spurningu hv. þm. Birgis Ármannssonar stutt og laggott. Ég ætla samt að lengja svar mitt örlítið. Ég tel að ákvæðið sem hefur náðst niðurstaða um í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé gott. Það er tekið á flestum þeim álitaefnum eða nánast öllum þeim álitaefnum sem hafa verið uppi um það. Það er búið mjög ítarlega um auðlindirnar. Ákvæðið er nánast heil blaðsíða í stjórnarskránni. Málið hefur því að mínu viti verið unnið afar vel. Það er hins vegar svoleiðis um öll mannanna verk að þau eru í grundvallaratriðum forgengileg. Stjórnarskrár eiga vissulega að vera tiltölulega stöðugar. Ég tel að sú niðurstaða sem þarna er komin eftir a.m.k. 15 ára umræður í samfélaginu, í þinginu, í stjórnlagaráði og víðar sé sú besta sem við getum náð og þess vegna mun ég styðja hana.