141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:21]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég er þeirrar skoðunar að í raun sé útilokað að þetta þing geti náð saman um nokkurn skapaðan hlut í því sem lýtur að stjórnarskránni. Ég held að það sé fullreynt. Þó svo að vilji væri til þess að gera tillögur til breytinga á breytingarákvæðinu, sem hv. þm. Árni Páll Árnason er 1. flutningsmaður að, er þar fyrir framan það sem hv. þm. Magnús Orri Schram kallaði tundurskeyti. Það springur og sprengir allt málið, einfaldlega vegna þess að minnihlutastjórnin hefur ekki vald á málinu, hvorki gagnvart tillöguflytjandanum, hv. þm. Margréti Tryggvadóttur, né í eigin röðum og því síður gagnvart stórum hluta stjórnarandstöðunnar, í það minnsta alls ekki gagnvart þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Sagan á þessu kjörtímabili segir okkur því miður að þegar koma þarf í gegn fordæmalausum málum standa ekki þau orð og þau fyrirheit sem gefin eru.

Menn hafa jafnvel gengið svo langt að sakfella í þessum sal einn tiltekinn stjórnmálamann. Þegar það gerist er allt traust, allur vilji, fokið út í veður og vind þegar um svo stórt mál sem stjórnarskrána er að ræða. Því miður er þetta staðan. Ég held að það sé verkefni okkar að einbeita okkur að því að ljúka öðrum verkum sem við vitum að hægt er að afgreiða. Að mínu mati er þetta mál þannig vaxið á alla kanta að útilokað er að ná nokkurri samstöðu um það.