141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um að tillaga hv. þm. Péturs Blöndals verður auðvitað rædd samhliða umræðu um breytingar á stjórnarskrá á næsta kjörtímabili. Ég var meira að leita eftir viðbrögðum hv. þingmanns við þeirri reynslu sem við höfum af þessu kjörtímabili og þeim vinnubrögðum sem við höfum horft upp á að þingmenn geta lagst í við að reyna að knýja fram breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Ég vil eiginlega bara segja vinnubrögð sem þeir geta lagst svo lágt að beita, eins og við höfum orðið vitni að á kjörtímabilinu. Verði þessu ákvæði breytt þarf að gera það eftir mjög þröngri túlkun, þ.e. það þarf að vera verulega erfiður þröskuldur að komast yfir.

Ef við hefðum haft slíkt þröngt ákvæði í stjórnarskránni núna, hvaða stöðu hefði það sett núverandi meiri hluta, eða minnihlutastjórn með stuðningi nokkurra annarra þingmanna, við þessa málsmeðferð? Þurfum við ekki, í ljósi reynslunnar, að hafa ákvæðið hreinlega mjög strangt þannig að mönnum detti ekki aftur í hug að beita þessum aðferðum þegar rykið verður fallið og þau vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð verða kannski fallin í gleymskunnar dá. Menn standi þá fyrir framan þennan þröskuld hyggi þeir á slík vinnubrögð aftur. Ef breytingarákvæðið hefði verið mjög strangt, eins og (Forseti hringir.) ég vil meina að ákvæðið sé sem hv. þm. Pétur Blöndal kynnti hér, hefði það knúið okkur til að beita (Forseti hringir.) vandaðri vinnubrögðum en við höfum orðið vitni að núna.