141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[17:26]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að taka aðeins til máls um stjórnarskrána og fara yfir aðdragandann í þeirri stöðu sem við erum í núna, en þar sem ég tel alveg einsýnt að þingi fari að ljúka einhvern tímann á næstu sólarhringunum, skulum við segja, ætla ég ekki bara að tala um stjórnarskrána. Ég ætla líka aðeins að tala um þennan vinnustað, Alþingi, sem ég hef nú unnið á í 18 ár og aðeins að segja frá reynslu minni hér; hvað hefur breyst, hvað hefur batnað, hvað hefur versnað og hvernig ég lít á þennan vinnustað eftir þennan langa tíma. Það eru ekki mörg tækifæri sem gefast til þess úr þessu af því að ef svo fer sem líklegt er, að samið verði um þinglok á næstu sólarhringum þá raðast hér upp á dagskrá fjöldi mála sem á að klára. Þá er ekki vinsælt að tala lengi um eitthvað annað en það sem snýr bara að þeim málum. Ég ætla því að nýta ræðutíma minn í að fara nokkrum orðum um þennan vinnustað, Alþingi, og þá reynslu sem hefur safnast upp hjá mér á 18 árum. En fyrst að stjórnarskránni.

Ég hef verið mikill talsmaður þess lengi að breyta stjórnarskránni og tel að það sé fyrir þó nokkru kominn tími á að við förum í endurskoðun á henni. Ég hef reyndar liðkað fyrir því ferli á síðustu árum. Ef ég fer aðeins yfir forsöguna þá ræddum við þessi mál nokkuð ítarlega í Framsóknarflokknum á sínum tíma og var sett á laggirnar nefnd sem Jón Kristjánsson, fyrrverandi hv. þingmaður, leiddi. Það var nefnd um íbúalýðræði. Sú nefnd, sem var á vegum Framsóknarflokksins, skilaði niðurstöðu sem var m.a. sú að fara ætti í það að breyta stjórnarskránni með svokölluðu stjórnlagaþingi, þ.e. bindandi stjórnlagaþingi. Við bjuggum til þingmál úr niðurstöðunni á sínum tíma og var sú er hér stendur reyndar 1. flutningsmaður að slíku máli fyrir hönd framsóknarmanna á 136. löggjafarþingi. Þá lögðum við til að bindandi stjórnlagaþing, sem í sætu 63 fulltrúar, kæmi með tillögu að nýrri stjórnarskrá. Sú tillaga sem kæmi frá stjórnlagaþinginu færi í þjóðaratkvæðagreiðslu og þjóðin mundi síðan samþykkja hina nýju stjórnarskrá sem þannig væri lögð fyrir eða hafna henni.

Það þýddi að málið færi aldrei til Alþingis, það færi fram hjá Alþingi. Alþingi Íslendinga kæmi ekki að málinu þannig að með lögum yrði verkefnið tekið úr höndum Alþingis og sett í hendur á bindandi stjórnlagaþingi og þjóðinni. Það varð aldrei að veruleika þó að framsóknarmenn hafi lagt það fram á sínum tíma. Málið var rætt á milli flokka en það var alveg ljóst snemma í umræðunni að m.a. sjálfstæðismenn voru ekki á þeirri skoðun að gera ætti það svona og hugmyndin dó meira eða minna í málþófi á sínum tíma. Úr varð að kjósa ráðgefandi stjórnlagaþing, ekki bindandi heldur ráðgefandi, sem ætti að skila inn tillögum að stjórnarskrá til þingsins og var það gert. Fram fór heilmikil kosning um ráðgefandi stjórnlagaþing. 84 þúsund manns tóku þátt í þeirri kosningu. Ég var mikill stuðningsmaður þess að það yrði gert. Það var það næstskásta í stöðunni fyrst ekki var hægt að ná samkomulagi um bindandi stjórnlagaþing. Eins og áður sagði kusu um 84 þúsund manns í kosningu til stjórnlagaþings en sú kosning var síðar úrskurðuð ógild af Hæstarétti. Þá voru góð ráð dýr. Hvað átti að gera? Miklar deilur voru um hvað gera ætti í stöðunni. Ákveðið var á Alþingi, og ég studdi þá vegferð, að sá hópur fólks sem kosinn hafði verið til ráðgefandi stjórnlagaþings af þeim 84 þúsundum í landinu sem tóku þátt í kosningunni, að skásta leiðin væri þá að Alþingi veitti þessum hópi umboð til að vinna að tillögu að nýrri stjórnarskrá. Það var gert en þó í miklum ágreiningi. Vegna þess að ég vildi liðka fyrir að eitthvað kæmi út úr vinnunni og að leitað yrði með þessum hætti til stærri hóps en til þingmanna og til þjóðarinnar með því að þjóðin valdi fólkið á stjórnlagaþing þá studdi ég að Alþingi veitti stjórnlagaráði umboð. Ég tel nefnilega mjög við hæfi að leita til þjóðarinnar varðandi ákveðin álitamál og var það gert þarna. Við fengum afurðina svo aftur hingað.

Síðan var tekist á um það, og það var mikið átakaferli eins og heyra má, hvað gera ætti við þá tillögu sem kom hingað frá hinu ráðgefandi stjórnlagaráði sem Alþingi hafði gefið umboð. Það vann áfram að breytingum og lagði fram heildstæða tillögu til þings um nýja stjórnarskrá. Hvað átti að gera við tillöguna? Átti að setja hana að einhverjum hluta í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki? Það var ákveðið að gera það og ég studdi það líka. Ákveðið var að taka ákveðnar prinsippspurningar út úr skjalinu og spyrja um hvort fólk vildi að stjórnarskráin væri á þeim nótum sem stjórnlagaráðið lagði til. Eins var spurt út í ákveðin atriði; persónukjör, vægi atkvæða, þjóðkirkjuna o.fl. og fólk svaraði bara með já-i eða nei-i.

Að sjálfsögðu var þetta ekki bindandi kosning og er alls ekki hægt að segja að Alþingi sé siðferðislega bundið af því að samþykkja stjórnarskrána eins og hún kom frá hinu ráðgefandi stjórnlagaráði, alls ekki. Hins vegar var mikilvægt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu varðandi þessi prinsippmál til að fá fram ákveðna niðurstöðu og eins þrýsting á þingmenn varðandi þessi álitamál, prinsippmál, þannig að það var fínt að fara í þjóðaratkvæðagreiðsluna. En svo þurfa einstakir þingmenn að gera upp hug sinn til hugmynda að breytingum. Þetta er ekki einhver pakki sem maður þiggur allan eða hafnar alfarið. Það var ljóst frekar snemma eftir að þjóðaratkvæðagreiðslan hafði farið fram og við búin að sjá skjalið sem kom frá stjórnlagaráði, að gera þurfti að ákveðnar breytingar á því. Það sáu held ég eiginlega allir. Það var ekki hægt að samþykkja það skjal óbreytt í heild sinni.

En hvað gerist svo? Á þeim tíma var ég frekar vongóð um að það tækist að klára málið en svo klúðraðist það og það er kannski engum einum um að kenna. Kannski var það óskhyggja að halda að við gætum klárað það á þessum tíma eftir hina ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá tel ég að ferlið hafi verið frekar hægfara í þinginu. Að lokum fengu nefndirnar að koma með ábendingar um hvað betur mætti fara varðandi þá kafla sem tilheyrðu nefndunum. Tillaga að nýrri stjórnarskrá var klippt niður í ákveðna hluta og nefndirnar fengu þann hluta sem hæfði þeim. Sú er hér stendur er í allsherjar- og menntamálanefnd þannig að við fengum þær greinar sem lutu sérstaklega að þeim málum sem heyra til allsherjar- og menntamálanefndar. Svo var niðurstöðum skilað í janúar, það var mjög seint í ferlinu; kosningabarátta fram undan, landsfundir og flokksþing flokkanna í uppsiglingu o.s.frv., þannig að hin efnislega umræða um greinarnar hefur eiginlega aldrei komist í gang almennt á hinu háa Alþingi. Ég held hins vegar að þeir sem sitja í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi skoðað greinarnar frekar vel eins og þingið hefði almennt átt að gera þannig að málið næðist í gegn. Eftir á að hyggja var það kannski óskhyggja að halda að við gætum klárað það á þessum tíma. Ég ætla því ekki að kenna neinum einstökum um það eða einhverjum flokkum eða neitt slíkt. Það er bara staðan sem uppi er núna.

Við hefðum kannski átt að setjast betur yfir það í ferlinu hvernig vinna ætti þetta þannig að það næðist en eins og ég sagði var það kannski óskhyggja að það mundi takast. Kannski tekur þetta bara miklu lengri tíma fyrst um heildarendurskoðun er að ræða. Ef eitt mál er umdeilt þá getur hver sem er hjakkað í því og stoppað allt hitt í leiðinni. Það er staðan í dag og ég tel einsýnt að voðalega lítið komi út úr þessu í augnablikinu, en ég ber von í brjósti um að næsta þing haldi áfram að vinna málið. Það þarf kannski að finna einhvern annan takt í þeirri vinnu, ég skal ekki segja um það, ekki verð ég á því þingi til að hafa áhrif á það. En ég óska þeim sem taka þátt í þeirri vinnu velfarnaðar og vona að við sjáum nýja stjórnarskrá í þingskjölum á næsta kjörtímabili sem þingið getur þá samþykkt rétt fyrir þarnæstu alþingiskosningar, ekki næstu. Þá færi málið í það hefðbundna ferli sem við þekkjum og við fáum nýja stjórnarskrá.

Þetta eru það sem ég ætla að segja um stöðuna í stjórnarskrármálinu. En nú ætla ég að víkja aðeins að þessum vinnustað almennt. Ég tek það fram að sú er hér stendur hefur ekki talað mikið í þessari pontu upp á síðkastið, má segja, og kannski aldrei þannig séð og ekki tekið þátt í málþófi, sem er mjög vinsælt að tala um í þessum sal. Þótt allir flokkar hafi tekið þátt í því hefur sú er hér stendur ekki verið þátttakandi í því og er það bara gott, enda hef ég mjög ákveðnar skoðanir á því hvernig þingsköpin eru varðandi það mál. Ég ætla aðeins að ræða það á eftir. En ég get alveg sagt það hér, af því að ég ætla aðeins að fara yfir þennan vinnustað, að ég tel að það hafi verið galli þegar þingið tók upp þá reglu að upplýsa um ræðutíma þingmanna. Þá fóru fjölmiðlar að birta hvað þingmenn töluðu lengi í pontunni og birtu opinberlega nöfn þeirra þingmanna sem tala mest og þeirra sem tala minnst. Það vill enginn þingmaður vera á botninum og tala minnst því að þá lítur út fyrir að hann hafi bara ekkert að segja og sé bara lélegur þingmaður o.s.frv., en það er alls ekki þannig.

Ég man eftir mjög góðum hv. þingmönnum sem töluðu sjaldan og lítið í pontu. Ég ætla að nefna einn þingmann af handahófi. Ég ætla ekki að nefna neinn hv. þingmann í mínum flokki, ég ætla að leyfa mér að nefna þingmann úr öðrum flokki sem var hér á sínum tíma, fyrrverandi hv. þm. Guðjón Guðmundsson úr Sjálfstæðisflokknum. Ég sé að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson situr og nikkar í salnum enda þekkjast þeir mjög vel. Fyrrverandi hv. þm. Guðjón Guðmundsson, sem var hér á sínum tíma í salnum, talaði mjög sjaldan í pontu en hann var samt einn af öflugustu þingmönnunum. Svona er hægt að telja upp fleiri þingmenn, en ég tel að með því að upplýsa um með allri þeirri tækni sem við búum við, hvað þingmenn tala lengi í pontu hvetji þingmenn til að fara upp oftar en þeir ættu að gera og tala lengur en þeir ættu að gera svo þeir lendi ekki á botninum. Enginn vill verma botnsætið.

Ég hef unnið á þessum vinnustað í 18 ár sem þingmaður og af þeim tíma var ég ráðherra í sjö ár. Ég verð að segja að mér þykir alveg gríðarlega vænt um Alþingi. Alþingi hefur breyst að mörgu leyti og mestallt er til batnaðar. Þegar sú er hér stendur var kjörin á þing árið 1995 var ýmislegt með öðrum hætti. Ég vil nefna fyrst að við vorum kjörnar hér inn 16 konur, þ.e. rúmlega 25%. Konur voru 15 á þinginu þar á undan þannig að það var nú frekar lítil breyting, en árið 1995 urðu konur 25% þingmanna þannig að þetta var karlavinnustaður í heildina. Það hefur breyst. Þó hefur ekki náðst algert jafnvægi í því en vonandi stendur það til bóta. Á þinginu þar á eftir voru konurnar 22, fóru úr 16 upp í 22, en svo varð bakslag, 19 konur voru kjörnar inn 2003. Síðan lagaðist það pínulítið, 20 konur 2007 og 27 konur árið 2009, sem eru þá tæplega 43%, þannig að konur eru komnar yfir 40%-múrinn, sem er gríðarlega ánægjulegt. Þar hefur orðið mikil breyting og er hún mjög til bóta. Ég tel að þessi vinnustaður hafi breyst á jákvæðan hátt fyrir vikið þannig að það er mjög jákvætt þó að ég verði að viðurkenna að konurnar hafa ekki alveg sama aðgang að völdum og karlarnir almennt, það ríkir enn þá svolítil karlastemning á þessum vinnustað.

Fyrir aftan mig er málverk af Ingibjörgu H. Bjarnason, sem var fyrsta konan á Alþingi. Ég hef heyrt skemmtilega sögu sem ég veit ekki alveg hvort er af Ingibjörgu H. Bjarnason eða Rannveigu Þorsteinsdóttur, sem kjörin var á þing fyrir Framsóknarflokkinn á sínum tíma. Sagan segir frá atburði sem á að hafa átt sér stað í þinghúsinu og tengist því að einhverju leyti hvernig þessi vinnustaður var og lýsir því hvað konur hafa verið reffilegar sem kjörnar hafa verið á þing. Ég veit sem sagt ekki hvort það var Ingibjörg H. Bjarnason eða Rannveig Þorsteinsdóttir sem lenti í þessu, en sagan segir frá því þegar viðkomandi kona var á hlaupum upp stigann fyrir framan Kringluna og hittir þar á forseta þingsins. Forsetinn segir: „Mikið eruð þér léttar á fæti, frú Ingibjörg“ — eða „frú Rannveig.“ Hún svarar, snögg upp á lagið: „Ja, ekki þyngir pungurinn.“

Þetta finnst mér svolítið skemmtileg saga af því að hún lýsir svolítið andanum hérna og hvað konurnar hafa oft verið uppteknar af því, af eðlilegum ástæðum, hvað það var mikilvægt að konur væru líka þar sem ákvarðanir voru teknar og að hafa áhrif á samfélagið. Það er ekkert lýðræði fyrr en konur eru til jafns við karla alls staðar, ekki bara á Alþingi heldur líka í ríkisstjórn, í stjórnsýslunni og á hverjum einasta vinnustað. Þessi saga lýsir svolítið þeirri hugsun.

En það er annað sem er líka mjög sérstakt við þennan vinnustað og það er hvers eðlis stjórnmálastarf og flokksstarf er. Hér eru 63 þingmenn og þótt oft birtist sú mynd að þingmenn standi allir eins og ein blokk í sínum eigin flokki og takist á við aðra flokka þá er það eiginlega ekki þannig í reynd. Hér eru menn vinir þvert á flokka og jafnvel mjög góðir vinir og svo eru menn ekki alltaf vinir innan flokka heldur, menn geta barist þar mjög grimmilega í mikilli samkeppni. Þeir sem hafa verið hér um hríð hafa fundið fyrir þessu öllu saman, og segi ég þetta bæði á jákvæðan hátt en neikvæðan líka. Það er alveg ljóst að þeir sem hafa valist hingað inn til að vinna fyrir land og þjóð eru fljótir að safna á sig þykkum skráp, þeir hafa þykkan skráp. Takast þarf á við mjög mörg verkefni inni í þessu samkeppnisumhverfi, oft í flýti, oft í stórum málum sem skipta miklu máli og fólk finnur til ábyrgðar gagnvart. Menn fá því fljótt þykkan skráp. Hér verða menn líka umdeildir. Einhvern tíma var sagt að þeir sem ekki væru umdeildir væru ekki að gera neitt. Ég held að mikið sé til í því. Þeir sem vilja breyta breyta oft eða koma að hagsmunum og verða þá umdeildir fyrir vikið. Þeir sem eru mjög umdeildir, það er spennandi að fylgjast með þeim af því að þeir eru yfirleitt eða oft að gera eitthvað snjallt. Það getur verið mjög kalt á toppnum þó að útsýnið sé gott, eins og danskur þingmaður sagði einu sinni og var reyndar yfirskrift á bók.

Sá vinskapur sem myndast oft á milli fólks er mikilvægur. Vinskapur þvert á flokka er gríðarlega mikilvægur, þannig er hægt að byggja brýr á milli flokka og leysa oft hin flóknustu mál á milli fólks sem ber traust hvert í garð annars þótt það sé ekki í sama flokki. Þetta verður eitt af því sem ég mun sakna þegar ég yfirgef þennan vinnustað eftir þetta kjörtímabil, ég mun sakna allra vinanna á þinginu. Þótt þeir fari ekki langt verður allt annað að vera ekki að vinna með þeim dagsdaglega og ég mun sakna þess.

Eitt sem hefur breyst mikið og verulega upp á síðkastið er nefndarstarfið og mig langar aðeins að fara nokkrum orðum um það. Nefndirnar voru miklu minni og fleiri þannig að þingmenn voru oft í tveimur nefndum, jafnvel í fjórum, fimm nefndum. Það var mjög þungt og sligandi fyrir þingmenn. Núna eru nefndirnar færri og stærri og fyrir vikið faglegri að mínu mati og þingmenn geta einbeitt sér betur að því sem fer fram í nefndunum. Þó að menn komist nánast aldrei alveg yfir allt sem þar á að gera og lesa þá er þetta mun faglegra.

Á sínum tíma — gaman er að rifja upp stórmál sem urðu mjög umdeild og svo voru þessar litlu nefndir að eiga við slík mál. Það er eitt mál sem mér er svolítið minnisstætt, gagnagrunnur á heilbrigðissviði, miðlægur gagnagrunnur, sem var gríðarlega umdeilt mál. Þegar það var tekið hingað inn stóð fyrst til að taka það frekar hratt í gegn og menn héldu að það væri hægt en svo reyndist það nú ekki og mjög mikið var rifist um málið í nefndinni. Fjöldi umsagnaraðila var kallaður til og umsagnaraðilarnir voru frammi á gangi meðan nefndin var að störfum — ég sat í heilbrigðisnefnd á þeim tíma, var reyndar ef ég man rétt varaformaður í nefndinni og ég held að hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, hafi verið formaður — hagsmunaaðilarnir voru kallaðir til og þeir voru hafðir margir frammi í einu af því að þeir voru teknir inn í frekar stórum hollum. Það voru næstum því slagsmál á ganginum milli hagsmunaaðila fyrir framan meðan nefndin reyndi að hlusta á þá sem voru mættir og sátu inni. Þá var handagangur í öskjunni.

Ég man til dæmis eftir einu og er svolítið skemmtilegt að rifja það upp og það er í eina skiptið sem ég hef orðið vitni að slíkum atburði. Það gerðist í nefndinni að hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, sem þá var þingmaður spurði einn gestinn, og það var ekki hvaða gestur sem var heldur Kári Stefánsson, sem var mjög mikilvægur umsagnaraðili í því máli, frá Íslenskri erfðagreiningu. Kári hafði þann sið að sletta talsvert ensku þegar hann talaði og Ögmundur Jónasson spurði gestinn á ensku. Það fannst mér stórkostleg stund og mjög sérstakt að sjá núverandi hæstv. innanríkisráðherra spyrja gestinn á ensku. Það vakti mikla kátínu í nefndinni. En nefndirnar eru stærri núna og faglegri og það er vel.

Hér var aðstaða öll þröng. Skálinn var ekki til staðar, ekki var búið að byggja hann þannig að allt fór fram í þessu húsi meira og minna, nema þingmenn voru með skrifstofur annars staðar. Hér var líka annar bragur á og ég tel að þar höfum við séð mjög jákvæða þróun. Menn skvettu stundum svolítið í sig og voru þá jafnvel í þingsal. Það var sérstaklega áður en menn luku störfum fyrir jól til dæmis. Í dag kæmust menn ekki upp með þetta. Það er gjörbreytt og er mjög til batnaðar hvernig það hefur allt þróast. Fólk tekur starf sitt þannig núna að því dettur þetta ekki í hug í dag og orðið hefur mjög jákvæð breyting. Gamli tíminn er farinn varðandi það mál.

Þessi salur er líka mjög sérstakur. Ég hef sýnt hann margoft gestum og hef alltaf gert það með miklu stolti. Ef gestirnir hafa verið íslenskir hafa þeir yfirleitt sagt: Svakalega er þessi salur lítill, við héldum að hann væri miklu stærri, hann lítur miklu stærri út í sjónvarpinu. Það er líka alltaf mjög skemmtilegt að segja frá því hvernig við sitjum í þessum sal af því að það er með sérstökum hætti. Ég held að það sé einsdæmi — ég veit alla vega ekki um önnur þing sem sitja eins og við sitjum — að við drögum númeraða kúlu úr kassa í upphafi hvers þings og sitjum þá ekki á sama stað milli ára nema við drögum sömu kúluna, sem er nú sjaldgæft, þannig að setið er eftir svona lottókerfi eins og einhver sagði á meðan í öðrum þjóðþingum er setið á kjördæmavísu eða eftir flokkum, en hér er það ekki.

Mig langar líka — af því að ég er að fara aðeins yfir þennan vinnustað og þennan sal í augnablikinu — að minnast á að íslenski fáninn sem er hér fyrir aftan var ekki þegar ég hóf störf á Alþingi 1995. Hann kom í þingsalinn árið 2007, það eru að verða sex ár í haust síðan íslenski fáninn kom hingað inn. Og núna getum við ekki hugsað okkur salinn án fánans, það var því mjög til bóta að fá hann inn. Hv. þáverandi þingmaður, Guðmundur Hallvarðsson, flutti það mál og meiri hluti var fyrir því að lokum — það þurfti að endurflytja það mál, hann flutti það fimm sinnum — að taka fánann inn í þingsalinn og þar með urðum við annað vestnorrænu ríkjanna til að gera það. Það var eitt vestnorrænt ríki á undan okkur í þessu, það var Grænland. Þeir skveruðu grænlenska fánanum inn í sinn þingsal strax og þeir fengu fána. Færeyingar voru svo aðeins á eftir okkur.

Svo má velta fyrir sér af hverju við sitjum með hæstv. ráðherra á þessum vængjum sitt hvorum megin og þingmenn fyrir framan. Þetta er svolítil þið- og við-uppsetning og ætti kannski að endurskoðast.

Síðan vil ég líka koma einu að — af því að ég er að fara aðeins yfir þennan vinnustað og mun ekki fá tækifæri til að hafa mikil áhrif á hann eftir næstu kosningar — að gera þyrfti eina bragarbót á þessum sal að mínu mati, þ.e. að setja upp raftöflu, þannig að þingmenn sjái hvaða mál eru á dagskrá, sjái næstu ræðumenn og þurfi ekki að hlaupa fram til að horfa á sjónvarpið til þess. Ég held að mjög væri til bóta að setja upp raftöflu annaðhvort upp á vegg til hliðar eða einhvers staðar fyrir aftan, ég tel að það sé ekkert mál og að afgreiða þurfi það.

Ég vil ekki yfirgefa þennan stól í þessari yfirferð minni án þess að tala aðeins um búsáhaldabyltinguna. Og hrunið af því að sá atburður hefur auðvitað litað mjög störf þingsins hin síðustu ár. Þegar ég lít til baka yfir þessi 18 ár, þá held ég að í framtíðinni muni ég ávallt hugsa um þingið og þennan tíma sem fyrir og eftir hrun. Það breyttist svo mikið við efnahagshrunið svokallaða.

Ég er ekki viss um að allir þingmenn, sem voru hér við þær aðstæður, séu alveg búnir að vinna úr þeim atburðum af því að þeir voru svo miklir, dramatískir, átakanlegir og skiljanlegir. Hér fylltist fólk réttmætri reiði og ekki bara fólkið í landinu heldur þingmenn líka og gríðarleg mótmæli urðu og miklar pólitískar sviptingar. Ríkisstjórn sem maður hélt að væri komin til að sitja mjög lengi, ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks með ofurmeirihluta, fór frá vegna þeirra atburða og gríðarleg átök hafa verið í samfélaginu má segja alveg síðan. Þegar maður rifjar þetta upp fyllist maður smátilfinningahita, ég verð að viðurkenna það. Hér voru mjög mikil mótmæli fyrir utan og hávaði, það heyrðist vart mannsins mál hér inni og mjög miklu kastað í húsið af eggjum og tómötum og fleiru. Mér skilst að það að háþrýstiþvo Alþingishúsið einu sinni sé eins og veðrun til 50 ára. Það þurfti að háþrýstiþvo Alþingishúsið tvisvar á frekar stuttum tíma, bæði eftir stefnuræðu hæstv. forætisráðherra og þingsetningu og það er 100 ára veðrun. Það er ljóst að húsið, sem er hús allra landsmanna, hefði stórskemmst ef því hefði ekki linnt að fólk kastaði í húsið eins og t.d. eggjum sem er mjög erfitt að ná af. Sem betur fer er það nú liðið hjá þannig að húsið skemmist vonandi ekki meira. En ég man eftir miklum hávaða fyrir utan og erfiðri stemningu, það var svo mikið sem buldi á húsinu, það voru ekki bara egg og tómatar, það var eitthvað miklu þyngra, ég veit ekki hvort það voru golfkúlur eða 50-kallar en það var eitthvað sem var hart. Maður var dauðhræddur um að rúðurnar mundu brotna og reyndar brotnuðu mjög margar rúður. En það sem ég var farin að óttast var að þær mundu brota og sáldrast yfir ráðherrabekkina sem eru næstir gluggunum. Ég man eftir því að eitt sinn gekk ég og hvíslaði að hæstv. ráðherrunum: Sitjið þið þannig að þið sitjið sem fjærst gluggunum. Getið þið ekki hallað ykkur fram og setið aðeins til hliðar eins og hægt er? Þetta var auðvitað gríðarlega óeðlilegt ástand.

Svo var það bara tilviljun að ég var í pontu þegar níumenningarnir svokölluðu stormuðu upp á þingpallana og sá atburður situr mjög í manni. Auðvitað var mikil háreysti og með ólíkindum að upplifa það að standa hér í pontu og gerð er árás á þingið, hópur fólks sem kemur hingað samstilltur inn. Þingverðir meiddust og mér skilst að búið sé að lýsa þessu í bók sem er nýkomin út. Alla vega fór ég í viðtal um það.

Það sem situr kannski mest í manni er þingsetningin sem var fyrir nokkrum árum. Þá var ákveðið að breyta ekki þingsetningunni þó að mikil mótmæli væru fyrir utan og gengið var héðan út og yfir í Dómkirkjuna undir miklu eggjakasti. Það brotnaði rúða í Dómkirkjunni og þarna sat maður inni, þjóðkjörinn þingmaður, á meðan kirkjan var meira eða minna bombarderuð af eggjum og tómötum sem verið var að kasta í hana, og við gátum ekki gengið út sömu leið til baka eins og venja var. Áður en við gengum út, hurðin var ekki opnuð, hún var lokuð að kirkjunni, var kallað á okkur inni í kirkjunni, þingverðir sem voru í sambandi við lögregluna fyrir utan kölluðu: Þéttið raðirnar, þéttið raðirnar, inni í kirkjunni þar sem við stóðum og biðum eftir að hurðinni væri hrundið upp svo við gætum farið út. Þarna stóð fremstur forseti Íslands, biskupinn o.s.frv. og það var bara með ólíkindum að upplifa þann atburð. Þéttið raðirnar, þéttið raðirnar var kallað. Mér fannst ég vera í einhverju stríðsástandi.

Svo var hurðin opnuð og við fengum þá skipun að hlaupa eins og fætur toguðu inn í þinghúsið bakdyramegin. Ég veit ekki hvort menn muna þetta, eggjakast var, presturinn fékk egg í eyrað og hljóðhimnan sprakk o.s.frv. Það er eiginlega með ólíkindum hvað við höfum farið í gegnum mikla atburði upp á síðkastið. En sem betur fer er þetta nú frá.

Síðan vildi ég að lokum minnast á nokkur atriði. Það góða sem hefur átt sér stað upp á síðkastið er að þingmenn eru að fá í gegn miklu fleiri mál en þeir fengu áður fyrr, sem betur fer. Það er stórbreyting þar á til batnaðar. Áður fyrr fengu þingmenn nánast engin mál í gegn. Sú er hér stendur fékk mál samþykkt frekar snemma eftir að ég varð þingmaður. Það var að fara í verkefni um að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Það þótti bara kraftaverk að ná því máli í gegn. Núna eru miklu fleiri mál að fara í gegn og sú er hér stendur hefur reynslu af því að ná mörgum fínum málum í gegn. Það er gríðarlega jákvæð breyting á þingstörfunum.

Hið vonda er að hér hefur verið talsvert agaleysi upp á síðkastið, mjög mikið er um frammíköll í þinginu og ég vil segja að böl Alþingis er hvernig umræðuhefðin er af því að við áætlum ekki umræðutímann fyrir fram. Margir kalla það málþóf og það er ekki bara málþóf rétt fyrir þinglok sem ég vil gera hér að umtalsefni heldur bara umræðutíminn almennt allan tímann meðan þingið er. Ég hef flutt mál varðandi það til að breyta þingsköpum. Ég vil að við gerum þetta eins og Norðmenn, og reyndar fleiri þjóðir, að við áætlum fyrir fram tímann í málin og svo útdeilum við tímanum á flokkana. Þannig gera aðrar þjóðir og það þekkist ekki málþóf. Það er algerlega fráleitt eins og við höfum þetta. Og það er enginn flokkur undanskilinn. Ég hef heyrt hv. þm. Árna Pál Árnason bera sig illa undan því að meiri hlutinn komi ekki málum í atkvæðagreiðslu, en hv. þingmaður eru úr flokki sem hefur aldeilis komið í veg fyrir að meiri hlutinn á sínum tíma fengi mál í atkvæðagreiðslu, til dæmis í málþófi. Það er enginn flokkur saklaus í þessu. Ég tel að það yrðu dramatísk, stórfengleg breyting á störfum Alþingis ef þingsköpum yrði breytt og ég veit að þeim verður breytt. Það er ekki hægt að hafa þetta svona til lengdar, það er bara útilokað. Hér þarf að afgreiða mál, ávallt, og áætla þarf ræðutímann, og þá verður umræðan betri og meira tillit tekið til minni hlutans, af því að menn þekkja hvernig mál fara fram, og færu þá ekki fram með miklu valdi eins og menn reyna í þessu umhverfi. Ég tel að það þyrfti þá líka að vera neyðarhemill, þ.e. að minni hluti þings geti beðið um þjóðaratkvæðagreiðslu í mjög stórum og erfiðum málum og ég tel að minni hluti þings mundi ekki misnota það.

Ég vil að lokum taka fram að í heildina er ég mjög sátt við þennan tíma á þinginu og er sátt við að yfirgefa þennan vettvang. Ég tel einnig að ég hafi náð mörgu góðu fram. Ég get nefnt ýmis mál sem snúa að jafnréttismálum. Ég minni á bann við súludansi, vændiskaupunum, bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum, alls kyns lýðheilsumál, transfitusýrur í matvælum, Skráargatið, nýja náttúruverndaráætlun o.s.frv.

Ég vil að lokum þakka sérstaklega fyrir, fyrst ég fékk tækifæri til að tala nokkra stund um þingið, og þakka þjónustulund starfsmanna þingsins. Helga Bernódussyni skrifstofustjóra með sínum aðstoðarskrifstofustjórum, Vigdísi Jónsdóttur, Karli Kristjánssyni og Þorsteini Magnússyni vil ég þakka fyrir alveg gríðarlega gott samstarf. Ég vil líka minnast á Guðlaug Ágústsson yfirþingvörð og þingverðina sem starfa með honum. Allt þetta fólk og aðrir starfsmenn þingsins segja aldrei nei. Þeir reyna alltaf að liðka til og leysa vanda hvers þingmanns og þau verkefni sem þau fá. Ég vil líka þakka Þorbjörgu Sigríði Þorsteinsdóttur matráðskonu, henni Siggu okkar eins og við köllum hana, og þeim sem eru í eldhúsinu fyrir að halda okkur hér á lífi almennt í þinginu með góðum mat og get sagt það að lokum að ég mun sakna þessa fólks alls og þakka því fyrir öll þau ár sem ég hef átt með því.