141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Undanfarna sólarhringa hefur verið vegið mjög ómaklega og af rangsleitni að fyrirtækinu Norðuráli á Grundartanga. Það hefur endurómað í umræðum í þinginu, m.a. í morgun. Við vitum öll til hvers refirnir eru skornir í þessu sambandi. Við vitum hvað hér býr að baki.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í formann Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálm Birgisson, sem skrifar pistil í gær og segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Við Akurnesingar gerum okkur algjörlega grein fyrir mikilvægi stóriðjunnar hér á Akranesi enda er nánast morgunljóst að ef að stóriðjunnar nyti ekki við þá væri hægt að slökkva ljósin hér á Akranesi og pakka saman. Svo mikilvæg er þessi starfsemi fyrir samfélagið á Akranesi og það þekkja allir þeir sem búa þar og í nærsveitum. Því biður formaður þá aðila sem tala niður þessa starfsemi að tala af ögn meiri virðingu fyrir þeim störfum sem þetta ágæta fólk sinnir dagsdaglega til að skapa hér gjaldeyristekjur fyrir íslenskt samfélag. Gjaldeyristekjur sem hjálpa til við að halda úti löggæslu, mennta- og heilbrigðiskerfi hér á landi.“

Sú umræða sem hefur farið fram um þetta fyrirtæki hefur verið alveg með ólíkindum og er alls ekki í samræmi við neinar staðreyndir málsins. Það hefur verið látið í veðri vaka að þetta fyrirtæki hafi ekki borgað neina skatta, engan tekjuskatt. Þó er það þannig að á síðasta ári greiddi Norðurál á Grundartanga hæstu opinberu gjöld nokkurs hefðbundins fyrirtækis fyrir utan ríki og banka og auðvitað hæstu gjöldin á Vesturlandi. Þar af var tekjuskatturinn 1,5 milljarðar kr.

Til viðbótar við þetta hefur fyrirtækið greitt, eins og fram hefur komið, fyrir fram greidda skatta og líka raforkuskatt til íslenska ríkisins. Á síðasta ári greiddi fyrirtækið 4,5 milljarða kr. inn í ríkissjóð. Það hefur verið látið í veðri vaka að fyrirtækið sé með veika eiginfjárstöðu og byggt á einhverjum brellum. Þó er álverið á Grundartanga með 50% eiginfjárhlutfall og arðurinn af þessu fyrirtæki sem rennur til móðurfyrirtækisins, sem er hér á Íslandi, hefur meðal annars verið notaður til að byggja upp starfsemina (Forseti hringir.) í Helguvík þannig að ég vil segja að það er ótrúlega ómerkilegt að ráðast að þessu góða fyrirtæki sem hefur skapað hundruð starfa á Akranesi og fjölmörg afleidd störf. Þetta er ómaklegt, þetta er ósanngjarnt og það á ekki að eiga sér stað (Forseti hringir.) að menn haldi áfram með slíkum röngum fullyrðingum eins og voru endurteknar hérna í morgun.