141. löggjafarþing — 111. fundur,  27. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[01:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hefði gjarnan viljað ræða málið undir öðrum kringumstæðum því að það þarf að ræða vel og ítarlega og er afskaplega mikilvægt að kynna það fyrir fólkinu í landinu. Um er að ræða mál þar sem menn eru sammála um markmiðin. Ég fullyrði að allir Íslendingar eru sammála þeim eða í það minnsta yfirgnæfandi meiri hluti þeirra. Því miður hefur verið farið þannig af stað að skapast hefur mikil óeining um þetta mikilvæga málefni og því höfum við fram að þessum tíma reynt að finna einhvern flöt á því svo hægt sé að bjarga því sem bjargað verður fyrir horn. Ég vil treysta því að samkomulagið sem hefur verið handsalað haldi, að við munum koma í veg fyrir stærstu slysin í málinu og getum gefið okkur tækifæri til að fara almennilega yfir það því að þekkt er að málið er meingallað.

Ég gæti eðli málsins samkvæmt haldið langa ræðu og ræður um málið en ætla ekki að gera það. Ég vil þó segja að það er dapurlegt að við skulum ekki geta náð almennri sátt um ferðir um Ísland þar sem náttúruunnendur geta notið landsins eins og þeir hafa gert fram til þessa án þess að því ágæta fólki sé skipt upp í hópa eftir því hvernig það ferðast um landið. Það er algjörlega nýtt að komin sé upp einhver andstaða gagnvart því fólki sem í rauninni gerði það að verkum að við höfum fengið að njóta landsins, þ.e. fólkið sem fer um á ökutækjum. Reyndar er það svo að vegna þess að fólkið fer um á ökutækjum og hefur verið að þróa ökutæki sín höfum við búið okkur til miklar útflutningstekjur þar sem við erum komin í algjöra sérstöðu með þau ökutæki. Ég vil fullyrða að alveg sama hvaða ferðamáta Íslendingar nota til að ferðast um landið sitt ferðast þeir ekki til að eyðileggja það því að það er lítið varið í fallega landið okkar ef menn fara þannig fram. Þvert á móti ferðast fólk um landið og nýtur þess af því að það er náttúruunnendur. Það ætti að vera markmið okkar allra, alveg sama í hvaða flokki við erum, að sjá til þess að sátt sé um hvernig við ferðumst um landið og fáum að nýta það og njóta þess.

Virðulegi forseti. Því miður er þetta frumvarp ekki þannig frumvarp, þvert á móti. Ég verð að viðurkenna að ég get ekki skilið af hverju er gengið fram á þennan hátt. Ég vil trúa því að fyrst og fremst sé um að ræða vanþekkingu, fólk hafi ekki ferðast um landið og þekki ekki til því að ég hef aldrei heyrt að fólk sem ferðast um Ísland, sérstaklega á hálendinu, kannist við þau vandamál sem er verið að leggja upp með hér. Þvert á móti höfum við búið til vandamál með aðgerðum stjórnvalda.

Það var áhugavert að hlusta Elínu Björgu Ragnarsdóttur á einum af þeim fjölmörgu opnu fundum sem ég hef verið á um þau mál. Hún er lögmaður og náttúruunnandi, hefur ferðast mikið um landið og hefur látið þau mál sig mikið varða. Elín Björg benti á þá augljósu staðreynd að mjög erfitt væri að ferðast um landið án þess að gerast brotlegur við lög. Það ætti að segja okkur hvernig við eigum að nálgast hlutina. Hún og aðrir náttúruunnendur fara svo sannarlega ekki, eins og ég nefndi áðan, um landið til þess að skemma það og eyðileggja heldur þvert á móti.

Ég vil vona að þegar við höfum lokið málinu, eins og við ætlum að gera núna og ég treysti því að það samkomulag haldi sem er búið að gera, berum við gæfu til þess, sama hvar í flokki við erum og sama hvernig næstu kosningar fara, að setjast niður með þeim aðilum sem gerst þekkja til mála, hafa ferðast um landið og kynnt okkur fyrir landinu, og vinna málið þannig að góð sátt sé um það. Við getum ekki att útivistarfólki hverju gegn öðru. Í rauninni er það svo að þegar við tökum einn þátt ferðamennsku, sem eru ferðir ökutækja, skerðum við líka rétt fatlaðra einstaklinga og þeirra sem eldri eru og reyndar barna líka.

Ástæðan fyrir því að ég hef svona mikinn áhuga á því er vegna þess að ég var svo lánsamur þegar ég var ungur að foreldrar mínir fóru með mig á hálendið. Við fórum að sjálfsögðu á bílum og ég hefði aldrei getað það öðruvísi. Ég þekki málin ekki einungis út frá þeim forsendum heldur líka sem veiðimaður. Ég held að við séum komin á þann stað að við þurfum að fara að nálgast þetta með meiri auðmýkt, ekki bara gagnvart náttúrunni heldur líka gagnvart fólkinu í landinu. Verkefnin eru fjölmörg og það er svo sannarlega mjög mikilvægt að ganga fram hvað ýmislegt varðar til að vernda náttúru okkar en það er ekki gert með því að etja fólki saman. Það er ekki gert með því að fara í stríð við ákveðna hópa sem njóta náttúru landsins og hafa ekki unnið sér neitt til saka. Það er ekki leiðin.

Virðulegi forseti. Ég vona að þeir sem fara með þau mál, hverjir sem það verða, á næsta kjörtímabili nálgist þau öðruvísi. Ég treysti því að samkomulagið sem hefur verið handsalað haldi og okkur gefist þá tími til að fara vel yfir málið því að þó svo við deilum um ýmislegt og séum með mismunandi skoðanir, hugmyndir og hugsjónir finnst mér að við eigum að geta náð sátt um að hægt sé að ferðast frjálst um Ísland og að Íslendingar, og auðvitað líka þeir sem koma og heimsækja okkur, fái að njóta þess sem landið hefur upp á að bjóða.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra. Það getur vel verið að mönnum hafi fundist það í lengra lagi miðað við aðrar ræður af því að klukkan er margt. Ég ætla þó að upplýsa virðulegan forseta um að ég er að hemja mig mjög mikið hvað málið varðar því að það þyrfti að ræða betur. Við gerum það við annað tilefni.