141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

fjármálafyrirtæki.

501. mál
[22:43]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka forseta kærlega fyrir og staðfesti hér með hina miklu mildi forseta að leyfa mér að tjá mig um þetta mál.

Ég tel nákvæmlega eins og hv. þm. Pétur Blöndal að þessi tillaga sé vel meint. Eins og kom fram í máli formanns efnahags- og viðskiptanefndar hefur verið mikil samstaða í nefndinni um að tryggja að upplýst sé um eignarhald þeirra sem eiga meira en 1% í fjármálafyrirtækjum. Við 2. umr. voru lagðar til ákveðnar breytingar á lögunum til að reyna að tryggja það. Ég tel mjög brýnt að við sjáum hver reynslan verður af þeirri lagabreytingu, en ítreka að mjög mikilvægt er að fylgjast með því hvort reynt verður að fara á svig við þau lög og þau skilaboð sem við erum að senda frá Alþingi um að það eigi að liggja fyrir hverjir það eru sem eiga fjármálafyrirtækin, hvaða einstaklingar það eru sem eiga hlut í fjármálafyrirtækjum. Það er það sem þingið er að reyna að gera hér. Það er það sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir er að gera með breytingartillögu (Forseti hringir.) sinni, en ég vil fyrst sjá hver reynslan verður af þeim ákvæðum sem þegar er búið að samþykkja og sit því hjá.