142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að vori á hverju einasta ári er okkur greint frá því í hvað stefni ef ekkert er að gert í mögulegri framúrkeyrslu innan ýmissa fjárlagaliða ríkisins. Það er því ekkert nýtt í þessu, engar nýjar fréttir eins og hæstv. forsætisráðherra hefur gengið hér um og haldið fram út um allar koppagrundir. Ekkert nýtt. Þetta er innihaldslaust þvaður af hálfu forustumanna nýrrar ríkisstjórnar.

Virðulegi forseti. Ég hlýt að spyrja um þetta. Komum að málinu sem um ræðir. Hluti af hvaða áætlun í ríkisfjármálum er þetta fyrsta mál nýrrar ríkisstjórnar um að afnema tekjustofn upp á 1,5 milljarða á ársbasis? Menn hljóta að hafa gert einhverja áætlun og koma þar af leiðandi fram með þetta mál sem fyrsta mál. Ég bið hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um að fara yfir það með okkur. Hluti af hvaða áætlun í ríkisfjármálum er þetta mál sem við ræðum hér?