142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[18:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það seyði sem hæstv. fjármálaráðherra var að kvarta undan að hann þurfi nú að drekka er að hluta til af honum sjálfum runnið. Hæstv. fjármálaráðherra og flokkur hans studdi mjög stóran hluta af því sem hann er að gera skóna að sé undan rifjum kosninganna runnið, þannig er það. Hv. þingmanni kom það ekki á óvart.

Hæstv. fjármálaráðherra gekkst hins vegar við því í ræðu sinni áðan, sem hann á lof skilið fyrir að gera, að vandi Íbúðalánasjóðs sem sannarlega er ærinn var honum kynntur eins og öðrum þingmönnum í umræðu undir lok síðasta árs. Hann vissi af honum. Það er eini parturinn af þeim vanda sem hann segist hafa fengið í fangið, og er að því er virðist á fyrstu dögum að kikna í sporinu undan, sem ég get fallist á að sé óvæntur. Ef sú staða er uppi að það þurfi að gjaldfæra þetta er það óvænt. Hann vissi eigi að síður af því.

Hinu er ósvarað af hálfu hæstv. fjármálaráðherra hvað þær aðgerðir kosta samtals sem þarf að ráðast í til að uppfylla þau loforð sem nýir ráðherrar hafa gefið. Ef hæstv. ráðherra er samkvæmur sjálfum sér um tærleika og nauðsyn þess að leggja allt á borðið hefði honum borið að segja þjóðinni frá því og líka okkur á þingi. Það eru ærleg og tær vinnubrögð sem ég vænti þess að hæstv. ráðherra muni ástunda eins og fyrri ríkisstjórn.