142. löggjafarþing — 6. fundur,  14. júní 2013.

veiðigjald.

15. mál
[15:24]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þeirri miklu umræðu sem fór fram um veiðileyfagjaldið og getu greinarinnar til að standa undir veiðileyfagjaldi á síðasta kjörtímabili var leitað til fjölmargra sérfræðinga. Unnar voru skýrslur af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, virtustu endurskoðunarskrifstofur landsins komu með mjög ítarlegar úttektir og skýrslur, Samband íslenskra sveitarfélaga fjallaði mjög ítarlega um málið og einstök sveitarfélög, fyrir utan beina hagsmunaaðila eins og sjómannaforustuna og útgerðaraðila, hvort sem það voru smábátar eða aðilar innan Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Það var samdóma álit allra þeirra sem komu fyrir nefndina í þeirri vinnu, ekki einu sinni heldur oftar, að við værum að ganga allt of langt og afleiðingarnar af þeim breytingum sem fyrirhugaðar voru, þar með talið hækkun á veiðigjaldi, væru allt of róttækar og mundu stefna í voða þeim góða árangri sem Íslendingar hafa náð í sjávarútvegsmálum. Ekki má gleyma því þegar við fjöllum um þetta mál að það er yfir vafa hafið að árangurinn í rekstri í sjávarútvegi er hvað mestur í heiminum á Íslandi. Við erum leiðandi á þessum vettvangi í heiminum. Það verður því auðvitað að fara mjög varlega, ganga hér mjög varlega um þegar við breytum einhverju sem hefur í heildina reynst mjög vel.

Ég ætla ekki að skella skollaeyrum við þeirri gagnrýni sem kemur fram, en Jón Steinsson kemur fram með hugmyndir sem eru algjörlega úr takti við allt annað sem ég hef séð, ég hef svo sem ekkert séð frá honum annað um þetta. Nefndin mun fara yfir hvaða (Forseti hringir.) gestir verða kallaðir á hennar fund eða hverja við fáum. Við erum að taka til (Forseti hringir.) tímabundinna ráðstafana má segja, eins og boðað er í frumvarpinu, og ítarlegri úttekt og vinna fer fram strax á haustdögum.