142. löggjafarþing — 15. fundur,  27. júní 2013.

eftirlit bandarískra stjórnvalda með íslenskum borgurum.

[11:34]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessar umræður. Það hefði verið gaman ef Framsóknarflokkurinn hefði tekið í þeim enda er hann annar stjórnarflokkurinn. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir svörin en bendi jafnframt á að íslenskt netöryggi hjá stofnunum þykir ekki mjög gott í dag. Ég veit að það á að laga það en þess vegna hef ég enn meiri áhyggjur af því út af því að umrædd söfnun á gögnum hefur átt sér stað á meðan við búum við mjög slæmt netöryggi.

Mig langaði líka að benda á, kannski hafa margir þingmenn gleymt því, að FBI hefur komið í heimsókn til mín og hefur farið í gegnum öll mín persónugögn, skoðað með hverjum ég var, hve lengi og hvenær. Það var ekki í gegnum hinar hefðbundnu aðaldyr heldur í gegnum hinar svokölluðu bakdyr, í gegnum netið. Ég hef komist að því að fleirum en Twitter var gert að afhenda gögn um mig, það eru fjögur önnur fyrirtæki sem eru mjög sennilega á þessum lista sem var í þeim gögnum sem Edward Snowden kom á framfæri. Það er hægt að finna mjög ítarlega greiningu á hversu langt bandarísk og bresk yfirvöld gengu. Mér væri sönn ánægja að koma þeim upplýsingum áleiðis til ráðuneytisins.

Mig langar að ljúka þessari umræðu í dag á því að þakka Edward Snowden sérstaklega fyrir að gera mig upplýsta og heiminn allan um hversu slæmt ástandið er og vera hvati til þess að ganga í það mikla verk að fara í alþjóðasamstarf um að skapa alvörufriðhelgi einkalífsins fyrir borgara, ekki aðeins íslenska ríkisborgara heldur borgara þessa heims.