142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég sat eins og fleiri og hlustaði á umræður í gær um veiðigjöldin. Er óhætt að segja að ýmislegt sem þar kom fram hafi vakið athygli. Í dag vil ég gera það að umtalsefni sem hv. þm. Páll Jóhann Pálsson lét frá sér fara. Hann sagði um hagsmunatengsl þingmanna við ákveðin útgerðarfyrirtæki og styrki þeirra til stjórnmálaflokka og alþingismanna, með leyfi forseta:

„Varðandi mig og hagsmunatengslin þá hef ég talið mig vera fulltrúa útgerðarinnar og hef ekkert farið leynt með það.“

Hann sagði einnig:

„Bjóst fyrrverandi ríkisstjórn — bjóst hv. þm. Ögmundur Jónasson við því að þegar hann kæmi inn í útgerðarfyrirtæki […] að menn færu að moka í hann einhverjum styrkjum eins og hann var búinn að koma fram? Ég er ekkert hissa á því að það hafi ekki verið gert miðað við hvernig hann er búinn að tala í kvöld. Datt honum virkilega í hug að hann gæti farið inn í þessa atvinnugrein og fyllt hjá sér bækur innan kvóta?“

Hv. þingmaður segir sem sagt að hann hafi boðið sig fram sem útgerðarmaður og sé talsmaður útgerðarinnar og telur ekki vanþörf á í þessari umræðu og í nefndarstörfum.

Á dögunum óskaði hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir eftir því að ég yrði ávítt, þar sem ég teldi að fundir atvinnuveganefndar ættu að vera opnir þannig að ljóst væri að fólk væri ekki að ganga erinda einhverra. Hv. þingmaður berar sig hér algjörlega með það, hann segist vera að ganga erinda ákveðinna aðila og það er fleira sem hægt er að tala um í ræðunni.

Ég hélt nú í einfeldni minni að þegar við færum í framboð til setu á Alþingi værum við að gera það til að vinna að almannahagsmunum og láta gott af okkur leiða en ekki til að vinna að sérhagsmunum. Þingmannastarfið er í raun bara samfélagsþjónusta þar sem almannahagsmunir eiga jú alltaf að vera í forgrunni.