142. löggjafarþing — 19. fundur,  2. júlí 2013.

veiðigjöld.

15. mál
[22:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta kom upp á fundi hv. atvinnuveganefndar, hjá fulltrúa Pírata þar, að þeir væru að velta þessu fyrir sér með forsetann, höfðu áhyggjur af því að forsetinn væri ekki á landinu og handhafar forsetavalds gætu þess vegna staðfest þessi lög. Ég sagði það þá og segi það enn og aftur nú að ég fylgist bara alls ekki með ferðum forsetans þannig að ég viti hvort hann er á landinu eða ekki. Enda skiptir það bara engu máli fyrir mig og ég er persónulega algjörlega tilbúinn að kvitta upp á það fyrir mína hönd að þessi lög verði ekki öðruvísi afgreidd en forsetinn veiti þeim þá meðhöndlun sem hann á að gera.

Virðulegi forseti. Mér þótti eitt ómaklegt í málflutningi hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, að ég væri að veitast að stjórnarandstöðunni í málþófi. Hver er að veitast að hverjum? Eru þingmenn að veitast að okkur stjórnarþingmönnum, meiri hluta nefndarinnar, með þeim málflutningi sem ég hef farið hér yfir þegar verið er að ýja að þessum tengslum og hagsmunagæslu og allt þetta? Er verið að veitast að okkur?

Ég er bara að svara því sem hefur verið hér í umræðunni. Ég er að bara að biðja okkur um að láta af því. Ég veit að ekkert okkar trúir því að annarlegir hagsmunir ráði afstöðu okkar í þessu máli, fyrir utan það að það stenst enga skoðun, virðulegi forseti, að hagsmunir Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) og Framsóknarflokksins séu í tengslum við stórútgerðir (Forseti hringir.) í landinu. Við erum miklu frekar að ganga í þeirra (Forseti hringir.) sjóði, í þeirra garð, við erum að ganga að þeim þegar við erum að leggja þetta mál fram núna og höfum gert það (Forseti hringir.) í gegnum tíðina.