skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.
Virðulegur forseti. Framkvæmd kosningaloforða Framsóknarflokksins árið 2003 leiddi til gríðarlegs tjóns. Það mikilvæga nú er að við gætum þess að framkvæmd kosningaloforða Framsóknarflokksins árið 2013 verði ekki annað eins stórslys. (Gripið fram í.)Allt að 270 milljarða uppsafnað tap. Það er nærfellt 1 millj. kr. á hvert mannsbarn í landinu. (Gripið fram í.)Það eru liðlega 3 millj. kr. fyrir fjögurra manna fjölskyldu í landinu og það tekur venjulega fjögurra manna fjölskyldu langan tíma og mikið erfiði að leggja til hliðar svo háar fjárhæðir. Þess vegna er ábyrgðin mikil og mikilvægt fyrir okkur að læra af því sem gerst hefur.
Þegar ég segi framkvæmd kosningaloforða Framsóknarflokksins þýðir það ekki að Framsóknarflokkurinn beri einn þessa ábyrgð. Það voru margir sem komu að þeirri framkvæmd. Það þýðir ekki að efni kosningaloforðsins í sjálfu sér, 90% húsnæðislán, hafi verið kjarni þess sem fór úrskeiðis því að staðreyndin er sú að í velferðarríkjum allt í kringum okkur eru veitt 90% húsnæðislán án þess að það hafi haft (Gripið fram í.)hræðileg efnahagsleg áhrif. (Gripið fram í.)Mistökin sem gerð voru eru í útfærslunni og í framkvæmdinni, fyrst og fremst því að réttur Íbúðalánasjóðs til þess að greiða upp þau lán sem hann tók sjálfur var af honum tekinn. Þau mistök kostuðu 100 milljarða íslenskra króna. Þau mistök leiddu til þess að gríðarlegt lausafé hlóðst upp inni í sjóðnum. Í örvæntingunni dældi hann því fé út á markað og kynti undir bæði þenslunni á markaðnum og samkeppni fjármálastofnananna við sjálfan sig og á undraskömmum tíma leiddi útfærslan og framkvæmdin á þessu kosningaloforð Framsóknarflokksins 2003 til þess að á Íslandi voru fyrir hrun, fyrir efnahagshrun, skuldsettustu heimili í heimi.
Þetta þurfum við að hafa í huga þegar við förum yfir þær tillögur sem við eigum eftir að fá á þessu kjörtímabili um framkvæmd á kosningaloforðum Framsóknarflokksins árið 2013. Án þess að ætla að vísa beint til einstakra orða sem komu fram á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í dag var þar lögð rík áhersla á að við alþingismenn skyldum muna og muna alltaf: Aldrei að gera allt fyrir alla vegna þess að það mun alltaf hafa í för með sér gríðarlegan kostnað.
Ég held að við skulum muna það þegar við tökumst á við útfærslurnar á kosningaloforðum Framsóknar árið 2013, kannski sérstaklega vegna þess að við hefðum mátt gera það betur þegar við fengumst við útfærslurnar á kosningaloforðum þeirra 2003.
Aldrei að gera allt fyrir alla af því það mun reynast öllum býsna dýrkeypt. En hvað annað getum við á þeim skamma tíma sem liðinn er frá því að fengum skýrsluna lært af því sem fór úrskeiðis? Það er að hér má ekki, hér má alls ekki, hvorki í Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu, Ríkisendurskoðun né nokkrum öðrum lykileftirlitsstofnunum í samfélaginu stunda pólitískar ráðningar. Eftirlitsstofnanir okkar, kjarnaeftirlitsstofnanir okkar, sem eiga að hafa eftirlit með atvinnulífinu, með fjármálalífinu og með stjórnmálamönnunum, verða að vera lausar við pólitíska spillingu og úthlutanir embætta til flokksgæðinga, hvort sem það er í Seðlabankanum eða Fjármálaeftirlitinu.
Hvað getum við líka lært af þessu? Við getum lært að þegar stofnanir gegna miklu efnahagslegu hlutverki, eins og Íbúðalánasjóður, megum við ekki undanþiggja þær eftirliti þótt þær séu félagslegar stofnanir öðrum þræði, við megum ekki undanþiggja þær reglum um aðhald, við megum ekki taka af Fjármálaeftirlitinu eða hafa heimildir Fjármálaeftirlitsins neitt minni til inngripa í slíkar stofnanir heldur en aðrar, vegna þess að þegar við freistumst á einhverjum öðrum forsendum til þess að draga úr aðhaldi með mikilvægum efnahagslegum stofnunum eins og Íbúðalánasjóði fer illa. Þegar hér fara saman stór og dýr kosningaloforð, illa ígrunduð útfærsla, pólitísk spilling í embættisveitingum og lítið aðhald með starfsemi sjóðsins verður reikningurinn sá sem hann varð, allt að 270 þúsund milljónir. Það er áfall af slíkri stærðargráðu að við hljótum að fara yfir það, ekki bara í dag heldur hljótum við að taka þá daga sem ákveðið hefur verið að hafa þinghald í september til þess að fara enn betur yfir það, í millitíðinni í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og það hlýtur auðvitað að vera verkefni okkar áfram í vetur að vinna úr því sem hér er á borðinu.
Hér var einhver drullumokstur af hálfu nýs þingmanns Framsóknarflokksins sem minnti helst á gamla sendiboða úr þeim flokki, eins og menn þekkja héðan úr þinginu, þar sem reynt var að draga persónur úr mínum stjórnmálaflokki til ábyrgðar um þetta efni. Ég ætla ekki að segja margt um það, það er einhvern veginn ekki þess verðugt þegar menn standa hér og nafngreina einstaklinga sem þeir vilja draga til ábyrgðar fyrir (Gripið fram í: Ómálefnalegt) þau mistök sem þeir bera fyrst og fremst ábyrgð á.
Ég bendi á að rannsóknarnefndin sjálf sá ástæðu til þess að kalla fyrir sig tiltekna félagsmálaráðherra til þess að fara yfir störf þeirra sem ráðherra. Það voru ekki þeir sem þessi nýi þingmaður Framsóknarflokksins nefndi sem voru kallaðir fyrir rannsóknarnefndina vegna starfa sinna sem ráðherrar. Þar er þó undanskilinn Árni Páll Árnason því hann var kallaður til hafandi starfað sem lögfræðingur á sínum tíma og skrifað þetta álit sem nefnt er. Þegar menn draga það fram skulu þeir ekki reyna að setja ábyrgðina á lögfræðinginn sem skrifaði álitið, síst af öllu þegar fyrir liggur að bæði Fjármálaeftirlitið og Ríkisendurskoðun höfðu sömu sjónarmið í málinu og hinn ungi lögfræðingur sem vísað var til.
Virðulegur forseti. Ég hvet Framsóknarflokkinn til þess að reyna að hafa þessa umræðu á ögn hærra plani og ögn minna persónulegu.