142. löggjafarþing — 20. fundur,  3. júlí 2013.

skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð o.fl.

[15:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þessi skýrsla er því miður dapurleg lesning og hún er stórfelldur áfellisdómur yfir ráðsmennskunni í Íbúðalánasjóði og reyndar standa árin 1999–2004 upp úr. Þeirri ábyrgð deila Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, þótt ég telji réttara að hafa það í þeirri röð en ekki hinni eins og skýrsluhöfundar gera. Þeir segja einmitt í samandregnum niðurstöðum sínum að ábyrgðinni á þessu deili Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eða ríkisstjórn þeirra flokka.

Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson flutti hér ræðu og tókst honum að komast í gegnum heila ræðu, langa ræðu, þar sem hann réttlætti Framsóknarflokkinn, án þess að nefna hann mikið á nafn, í hverju einasta tilviki með tilvísun í tíðarandann, með því að einhverjir í stjórnarandstöðu hefðu haft svipuð viðhorf eða einhver samtök úti í bæ hefðu talið að þetta eða hitt ætti að vera svona. Framsókn var með öðrum orðum í máli hans hvítþvegin með þessari aðferð. (HöskÞ: Það sagði ég ekki.) Ábyrgðarlaus með öllu, bara „árangur áfram, ekkert stopp“. (HöskÞ: Það er mjög málefnalegt.) Já, þetta var svona og svipað var upp á teningunum í ræðu hv. þm. Karls Garðarssonar.

Ég hef engan sérstakan áhuga á því að útlista þátt Framsóknarflokksins í þessari skýrslu enda þarf þess ekki, hana lesa menn. En eftir málsvörn af þessu tagi þar sem vottar ekki fyrir auðmýkt af hálfu þingmanna Framsóknarflokksins er varla annað hægt en að draga aðeins fram þeirra hlut. Hér eru svo stórfelld mistök á ferð og svo dýr að þetta verður stórt í sögunni, í sögu hrunsins og áranna fyrir hrunið. Við erum að tala um einn af þremur stærstu reikningunum sem íslenskir skattborgarar framtíðarinnar munu bera. Þetta er á pari við gjaldþrot Seðlabankans. (HöskÞ: Minna en …) Þetta er svipuð (Gripið fram í.) upphæð og tengd þó hallarekstri ríkissjóðs á árunum 2008–2013. (HöskÞ: Icesave.) Ég held að hv. þingmaður ætti að reyna að hafa örlitla biðlund. Já, við getum líka farið yfir Icesave. Hver ætli niðurstaðan af því verði? Þótt það mál hefði verið leyst með fyrstu samningum hefði það orðið brot af þessum kostnaði og hann er þó sannarlega á Framsókn.

Það er ágætt að helmingaskiptaflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, eftir ráðsmennsku sína deili með sér reikningunum nokkurn veginn 50:50. Gjaldþrot Seðlabankans undir stjórn Davíðs Oddssonar er svipað kjaftshögg á íslenska ríkið og höggið á Íbúðalánasjóð undir forustu Framsóknarflokksins, helmingaskipti þar 50:50. Þannig er það.

Auðvitað liggja rætur þessa dýpra. Ég er sammála síðasta ræðumanni um að mistökin byrja strax með því að leggja niður félagslegan hluta húsnæðislánakerfisins á Íslandi. Það gera sömu flokkar þegar Byggingarsjóði verkamanna er lokað og félagslegar úrlausnir í húsnæðismálum fyrir tekjulágt fólk hverfa út úr myndinni. Þetta er röð pólitískra og embættislegra mistaka sem rekur sig aftur til upphafsára samstarfs Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar þeir lögðu niður félagslega kerfið á Íslandi, sem við hefðum betur átt allan tímann og hefði væntanlega leitt til þess að umsvif Íbúðalánasjóðs í framhaldinu hefðu orðið mun minni á almennum markaði og höggið minna sem því nemur. Hér talar maður sem sat í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins (Gripið fram í: Og ríkisstjórn …) og þekkti það mjög vel. Ég var ákaflega ósáttur við það allan tímann hvernig farið var að ráðum þar.

Þessi gríðarlegu mistök eru í sjálfu sér ekki fyrst og fremst tengd hinu dæmalausa kosningaloforði Framsóknar um 90% húsnæðislán. Það er framkvæmdin og ráðsmennskan í sjóðnum sem kostar mest. Ég tel að vísu að það hafi verið offari að fara upp í 90% veðsetningarhlutfall, en látum vera að það væri hækkað eitthvað úr þeim 65–70 sem það hafði verið. (Gripið fram í: Samþykktin upp í 90.) En það þurfti að standa almennilega að því að útfæra það og það eru mistökin sem eru gerð varðandi uppgreiðsluáhættuna, það er sú ráðsmennska að Íbúðalánasjóður skuli halda áfram að gefa út bréf og sækja sér lán þótt hann sé að fyllast af peningum vegna uppgreiðslulána. Hann gefur út 60 milljarða í viðbót sem hann hefur ekkert með að gera, þarf að koma í ávöxtun og það eykur lausafjárstýringarvandann og tapið þegar upp er staðið. Þar fóru miklir fjármunir þegar Íbúðalánasjóður tapaði verulegum fjárhæðum af því lausafé sem hann átti í hruninu og var í ávöxtun hér og þar vegna þessara hluta. Þetta er ótrúleg ógæfa og mistök og verður ríkissjóði Íslands mjög dýrt. Við erum búin að greiða 50 milljarða inn á þennan reikning og það er bara innágreiðsla, því miður. Það er þannig.

Það sem ekki er rætt hér er tjónið fyrir almenning í landinu og ógæfan sem þetta hefur leitt yfir okkur í húsnæðismálum. Þar liggja rosalegir reikningar sem við skulum ekki gleyma, því að þetta er hluti af ógæfunni sem skrúfast upp í húsnæðismálunum og veldur því hvað vandinn varð mikill við hrunið og er enn.

Það er talað um að ekki megi bera saman loforð Framsóknarflokksins nú og þá. En er annað hægt? Það ömurlega er að sagan endurtekur sig með tíu ára millibili. Kosningabaráttan 2003 varð einhver dýrasta kosningabarátta Íslandssögunnar vegna þess að hún er að mörgu leyti uppskriftin að hruninu. (Gripið fram í: Þú varst að segja að hún væri …) Og hvernig voru þau loforð, eigum við að fara yfir það? Sjálfstæðisflokkurinn lofaði gríðarlegum skattalækkunum og Framsóknarflokkurinn lofaði í húsnæðismálum. Hafið þið heyrt þetta aftur? (Gripið fram í.)Seðlabankinn og fleiri vöruðu við, en samt var þetta gert. Hver er staðan núna? Hvernig voru kosningarnar 2013? Sjálfstæðisflokkurinn lofar skattalækkunum og Framsókn lofar í húsnæðismálum og Seðlabankinn er byrjaður að vara við loforðum Framsóknar.

Þetta er fullkomin endurtekning þegar þessir flokkar ná saman og þeir tala sig inn á þjóðina, mér er annað ofarlega í huga en ég ætla ekki að nota það hér, með nákvæmlega sömu formúlunum með tíu ára millibili. Það er ástæða til að hafa af því stórkostlegar áhyggjur. Sporin hræða. Þau gera það heldur betur. Sagan endurtekur sig. Nú man ég ekki nafnið á kvikmyndinni þar sem mannauminginn vaknar alltaf upp sama morguninn aftur og aftur og aftur. (Gripið fram í: Groundhog day.) Groundhog day, já. Þetta er eiginlega þannig að við erum að vakna hérna upp aftur á sama degi og 2003 eftir skelfilega ábyrgðarlausa kosningabaráttu þar sem menn svífast einskis til þess að ná atkvæðum og eiga algerlega eftir að vinna úr því hvað þau loforð kunna að hafa í för með sér efnahagslega, pólitískt og fyrir landið. Það er mikið áhyggjuefni.

Að síðustu vil ég þó segja að ég tek að sjálfsögðu undir það eins og aðrir að okkur beri skylda til þess núna að setjast mjög rækilega yfir þessi húsnæðismál. Það er ein af ógæfusögum Íslands hversu ólánlega okkur hefur tekist, sérstaklega síðustu 15 árin eða svo, að kunna fótum okkar forráð í húsnæðismálum. Það er dapurlegt hvað það hefur orðið þessu samfélagi dýrt að við skulum ekki hafa náð að byggja hér upp stöðugleika og trúverðugleika og einhverja ábyrgð þannig að fólk geti með sæmilegu (Forseti hringir.) öryggi leyst úr þessum brýnustu þörfum allra venjulegra fjölskyldna.