142. löggjafarþing — 21. fundur,  3. júlí 2013.

stjórnarskipunarlög.

5. mál
[17:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða breytingarákvæði á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Það er rétt að byrja á að vísa í okkar ágæta fræðimann, sem nú er fallinn frá, Ólaf Jóhannesson. Hann skrifar í bók sinni Stjórnskipun Íslands árið 1960, með leyfi forseta:

„Það er höfuðeinkenni íslenskrar stjórnskipunar, að megindrættir stjórnskipulagsins eru ákveðnir í sérstakri stjórnarskrá, sem sett er með öðrum og vandaðri hætti en almenn lög.“ — Jafnframt er á það bent að glöggt verði að greina á milli stjórnarskrárgjafans og almenna löggjafans. — „Almenni löggjafinn má aldrei ganga inn á svið stjórnarskrárgjafans. Af þessum sökum verður stjórnarfyrirkomulagið vafalaust haldbetra og varanlegra en ella myndi. Stjórnarskráin getur staðið af sér hin tíðu veðrabrigði stjórnmálanna og stundarátök þjóðfélagsaflanna. Stjórnarskrána má því með réttu kalla kjalfestu þjóðfélagsins. Hitt er annað mál, að engin stjórnarskrá, hversu vönduð sem er og hversu tryggilega sem um hana er búið, getur staðist til lengdar ef hún er orðin algerlega andstæð ríkjandi hugarstefnum og þjóðfélagsskoðunum. Séu slík straumhvörf virt að vettugi, og stjórnarskránni haldið óbreyttri, bíða hennar sömu örlög og nátttröllsins í þjóðsögunni, hana dagar uppi og hún verður að steini, dauðum bókstaf, sem enginn hirðir um, hvort sem hún er sett til hliðar með byltingu eða með öðrum hljóðlátari hætti. Þeir varnarmúrar, sem reistir eru um stjórnarskrána, mega því ekki verða til þess að stöðva eðlilega framvindu þjóðlífsins.“

Mér finnst vel við hæfi að rifja upp þessi orð lagaprófessorsins, Ólafs Jóhannessonar, þegar við stöndum á þeim tímamótum að fara fram með nýtt frumvarp á þessu þingi. Eins og allir vita þarf að breyta stjórnarskránni með samþykkt tveggja þinga og skal það frumvarp sem lagt er fram á síðara þinginu vera algjörlega sambærilegt því sem lagt er fram á fyrra þingi með alþingiskosningar á milli.

Virðulegi forseti. Ég er frekar slegin yfir því að þetta mál skuli vera komið hér fram vegna þess að þann 28. mars sl. var það frumvarp sem var til umræðu í dag einungis samþykkt með atkvæðum 25 þingmanna. Ekki náðist einu sinni meiri hluti í þinginu fyrir frumvarpinu á síðasta fundi. Hvað hefur gerst í millitíðinni? Jú, heilar alþingiskosningar. Þeir flokkar sem fóru fram með frumvarpið á síðasta þingi, sem voru aðilar að ríkisstjórninni, náðu ekki nema 25 þingmönnum á frumvarpið. Nú hafa alþingiskosningar farið fram. Þessi flokkar voru kosnir í burtu eins og frægt varð 27. apríl sl., samt er þetta mál komið hér aftur fyrir þingið.

Um stjórnarskrárbreytingar á að vera víðtæk sátt í þinginu. Það stendur ekki í stjórnarskránni að víðtæk sátt eigi að ríkja, en þannig hefur það alltaf verið. Og stjórnarskráin okkar er svo sannarlega ekki nátttröll, svo að vísað sé í orð Ólafs Jóhannessonar, því að henni hefur verið breytt þó nokkrum sinnum síðan hún var sett árið 1944. Víðtækasta breytingin var 1995 þegar mannréttindakaflinn kom inn í stjórnarskrána. Stjórnarskráin á að vera kjölfesta, grunnur, sem við byggjum samfélag okkar upp á. Stjórnarskráin á að vera allt um kring og vernda fyrst og fremst réttindi borgaranna gagnvart ríkisvaldinu.

Virðulegi forseti. Að fara fram með þessa breytingu, um hvernig breyta eigi stjórnarskrá, og gera að bráðabirgðaákvæði í stjórnarskránni, finnst mér ekki boðlegt íslenskum stjórnskipunarrétti. Ekki undir neinum kringumstæðum. Ég fullyrði, án þess að hafa rannsakað það sérstaklega, að hvergi nokkurs staðar í vestrænu ríki er bráðabirgðaákvæði í stjórnarskrá eins og lagt er til í þessu frumvarpi. Bráðabirgðaákvæðið á að gilda í fjögur ár. Á næstu fjórum árum á að vera hægt að breyta stjórnarskránni komi fram tillögur um það í þinginu og séu 2/3 hlutar þingmanna samþykkir því; það fari síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu og 40% atkvæðisbærra manna gjaldi já við því.

Virðulegi forseti. Hvaða leik er verið að fara í með stjórnarskrána, stjórnarskrána sem á að vera undirstaða allrar lagasetningar í landinu? Svo að ekki sé nú talað um að hún á að vera undirstaða allra mannréttinda í landinu. Ég vil að þingmenn taki stjórnskipunarvald sitt mjög alvarlega því að stjórnskipunarvald Alþingis er ekki það sama og löggjafarvaldið eins og Ólafur Jóhannesson minntist á í tilvitnuðum orðum í upphafi ræðu minnar. Löggjafarvaldið eru 63 þingmenn á hverju þingi fyrir sig, en stjórnskipunarvaldið eru tvö þjóðþing og þeir nýju þingmenn, sem voru kosnir nú í vor í kosningunum, fara raunverulega með hinn hluta stjórnskipunarvaldsins sem fyrra þing hafði.

Þess vegna verð ég að ítreka það, virðulegi forseti, að stjórnskipunarvaldið er mun meira vald en nokkurn tímann löggjafarvaldið. Það er ekki að ástæðulausu, það er vegna þess að stjórnarskráin er okkar æðstu lög og hana má ekki hafa í flimtingum og henni á ekki að breyta vegna títtnefnds tíðaranda í samfélaginu eins og Ólafur Jóhannesson lagaprófessor minntist á í bókinni sem ég vísaði í. Stjórnarskráin þarf að vera hafin upp yfir pólitískar þrætur.

Ég hef fullyrt það hér áður, og sagði það á fyrra þingi, að gert hafi verið áhlaup að stjórnarskránni undir stjórn Samfylkingarinnar, og þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem kostaði fleiri hundruð milljóna. Þetta eru eftirstöðvarnar. Hv. þm. Árni Páll Árnason sópaði sjálfur því frumvarpi sem var verið að reyna að koma í gegnum þingið síðastliðin þrjú ár út af borðinu með einu pennastriki og lagði fram það frumvarp sem hér er til umræðu um að breyta megi stjórnarskránni á næstu fjórum árum hvenær sem þörf þykir. Tel ég að það hafi verið einhvers konar málamiðlun til að friða öfl í Samfylkingunni og þá aðila sem kölluðu eftir nýju plaggi, kölluðu eftir nýju Íslandi og kölluðu eftir nýrri stjórnarskrá eins og hægt væri að þurrka allt út og byrja upp á nýtt.

Virðulegi forseti. Þetta mál er afar einkennilegt. Komi til stjórnarskrárbreytingar í þinginu samkvæmt því breytingarákvæði sem hér er lagt til er nánast hægt að segja að hægt verði að breyta stjórnarskránni allt næsta kjörtímabil. Ég tel að Alþingi Íslendinga hafi ekki tíma til að vera undirlagt í fjögur ár í viðbót í umræðum um það hvort breyta eigi stjórnarskránni eða ekki. Stjórnarskráin stóð af sér bankahrunið sem dæmi, hún hefur staðist tímans tönn og var uppistandandi þegar öllu var á botninn hvolft og það þurfti ekki þetta áhlaup á hana.

Framsóknarflokkurinn vill breyta ákvæðum í stjórnarskránni, við höfum talað fyrir því lengi. Framsóknarflokkurinn vill auðlindaákvæði í stjórnarskrána. Framsóknarflokkurinn er hlynntur þjóðaratkvæðagreiðslum og vill hafa þær bindandi. Slíkt ákvæði verður að setja í stjórnarskrána, enda er starfandi við þingið stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem hefur það hlutverk með höndum að hafa stjórnarskrána í sífelldri endurskoðun. En vanda þarf til verka og ekki ana að neinu.

Á næstu fjórum árum, á gildistíma þessa frumvarps, verði það að stjórnarskipunarlögum, verður hægt að breyta stjórnarskránni, allt næsta kjörtímabil. Tvær kosningar eru bundnar þar sem hægt væri að leggja stjórnarskrárbreytingar fyrir, sveitarstjórnarkosningar að ári og forsetakosningar eftir þrjú ár. Svo er aldrei að vita nema boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslna. Við sjáum alveg að þetta skapar ólgu, það skapar þrýsting á þingið að hafa stjórnarskrármálið sífellt til umfjöllunar í stað þess að byggja upp atvinnulíf og koma skuldugum heimilum til hjálpar.

Þetta eru mínar áherslur, virðulegi forseti. Ég segi að lokum: Verði þetta frumvarp að lögum er brotið í blað í stjórnarskrármálum Íslendinga og stjórnskipun. Fyrra frumvarpið var samþykkt með 25 atkvæðum þingmanna — talandi um mikla sátt sem þurfi um stjórnarskrárbreytingar. Það kemur í ljós hve margir þingmenn koma til með að samþykkja þetta frumvarp í atkvæðagreiðslu á eftir, en þarna er verið að brjóta í blað. Ekki er verið að ná heildarsátt um breytingar á stjórnarskránni hér í þinginu. Mér þætti það mjög miður, sérstaklega í ljósi þess að lýðveldið fagnar 70 ára afmæli á næsta ári, að í gegnum þingið fari stjórnarskrárbreytingar á minni hluta atkvæða þingmanna á tveimur þingum, hjá stjórnskipunarvaldinu, á minni hluta atkvæða þingmanna. Það er brotið í blað í sögu íslensku þjóðarinnar. Eftir því verður tekið og lögspekingar framtíðarinnar eiga eftir að skrifa um það.