142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég verð að játa að ég varð fyrir vonbrigðum með svar hv. þingmanns, formanns allsherjarnefndar Alþingis, Unnar Brár Konráðsdóttur, vegna fyrirspurnar minnar áðan en leyfi mér að kveðja mér hljóðs að nýju og hvetja hana til dáða. Ég hvet hana til að beita sér fyrir því að allsherjarnefnd og Alþingi hafi forgöngu um að bjóða Edward Snowden landvist á Íslandi.

Hv. þingmaður, formaður allsherjarnefndar, segir að það skorti gögn í málinu. Heimspressan er full af gögnum. Við höfum staðfesta yfirlýsingu frá einstaklingum sem hafa verið upplýstir um það sjálfir beint að um þá var njósnað og þar með brotin stjórnarskrá Íslands á mannréttindum þeirra. Okkur ber að bregðast við slíku.

Hv. þingmaður svarar með kerfissvari og segir að viðkomandi þurfi að vera staddur í landinu til að sækja um hæli. Við erum að tala um landvist og við erum að tala um stórpólitískt mál. Einstaklingur sem hefur upplýst heimsbyggðina um stórfelld mannréttindabrot, brot á persónuvernd og stjórnarskrá nánast allra landa er að leita landvistar. Hann á hvergi höfði sínu að halla. Við erum að tala um það að Alþingi Íslendinga hafi forgöngu um að bjóða þessum einstaklingi, sem við eigum öll skuld að gjalda sem viljum mannréttindunum vel og viljum standa vörð um stjórnarskrá okkar og lög, við erum að hvetja til þess að við veitum honum landvist.

Þá eru svörin þessi: Hann er ekki staddur hér á landi. Hann hefur ekki staðið formlega rétt að málum. Ég er að tala um að við höfum forgöngu um það, Alþingi Íslendinga, að Íslendingar hafi forgöngu um að bjóða þessum einstaklingi, sem heimsbyggðin öll á skuld að gjalda, (Forseti hringir.) landvist á Íslandi.