143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var gert ráð fyrir að heildarjöfnuði yrði náð á árinu 2014. Í þeirri áætlun sem sett er fram í fjárlagafrumvarpi því sem hér er til umræðu er einnig gert ráð fyrir því — að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs og komast sem fyrst í þá stöðu að geta greitt niður skuldir var forgangsverkefni á síðasta kjörtímabili og sú stefna sem þá var tekin hefur skilað okkur á þann stað að möguleiki er á að heildarjöfnuður náist á árinu 2014 og með því verða þáttaskil í þróun ríkisfjármála.

Síðasta ríkisstjórn valdi að treysta á blandaða leið hagvaxtar, skattkerfisbreytinga og samdráttar í ríkisútgjöldum til að vinna bug á stórfelldum ósjálfbærum fjárlagahalla sem við blasti eftir bankahrunið. Vandrötuð var sú leið að hækka skatta og gjöld sem ekki voru íþyngjandi um of fyrir fyrirtæki og einstaklinga og um leið að skera niður í ríkisrekstri án þess að þeir sem mest þurfa á þjónustu hins opinbera að halda þyrftu að bera mesta þungann af afleiðingum bankahrunsins. Það tókst með stefnu ríkisstjórnar jafnaðarmanna og með því að fólkið í landinu tók á sig auknar byrðar og starfsmenn ríkisstofnana á sig aukið álag.

Allir sjá mikilvægi þess fyrir litla þjóð að komast sem fyrst í þá stöðu að greiða niður skuldir. Allt of stór hluti ríkisútgjalda, um 85 milljarðar á árinu 2014, fer í að greiða vexti. Sannarlega vildum við geta nýtt þá peninga í velferðarkerfið, til atvinnuuppbyggingar og styrkingar á innviðum samfélagsins. Svo skuldug þjóð sem við Íslendingar erum getur ekki ráðið við utanaðkomandi áföll sem hugsanlega steðja að. Við getum rétt ímyndað okkur hver staðan væri ef við hefðum verið svo skuldug við bankafallið og hrun efnahagsins haustið 2008. Þá værum við nú háð hugmyndum lánardrottna og bankamanna um hvernig samfélagsþróun yrði hér á landi. Það má aldrei gerast. Því er markmiðið um að skila afgangi í ríkisrekstri og geta greitt niður skuldir sem fyrst afar mikilvægt.

Árið 2014 er aðeins gert ráð fyrir 500 millj. kr. afgangi svo augljóst er að staðan er viðkvæm og þar sem ekki mátti skilja hæstv. forsætisráðherra í tíufréttunum í gærkvöldi öðruvísi en svo að vilji stæði til að draga niðurskurð á Landspítalanum til baka og bæta í tækjakaup er aðeins sú aðgerð búin að setja okkur niður fyrir núllið.

Auðvitað vildi sú sem hér stendur að ríkisstjórn jafnaðarmanna hefði fengið tækifæri til að byggja upp samfélagið en ekki aðeins að taka til eftir hagstjórnarmistök ríkisstjórna þeirra flokka sem nú mynda meiri hluta á Alþingi. Þá yrði stefnan allt önnur og forgangsröðunin önnur bæði á tekju- og gjaldahlið. En svo er ekki. Við munum beita okkur fyrir breytingum á frumvarpinu í meðferð þess í fjárlaganefnd og í efnahags- og skattanefnd.

Fjárlagafrumvarpið er helsta stefnuplagg hæstv. ríkisstjórnar. Þar raungerast áherslurnar og forgangsröðunin kemur fram. Fremst í forgangi hjá stjórnvöldum var að lækka það gjald sem stórútgerðir greiða fyrir sérleyfið að auðlindum þjóðarinnar. Það er gert þrátt fyrir að rekstrarafkoma þeirra hafi aldrei verið betri og þar hafi fall krónunnar komið sér vel á meðan almenningur og ríkissjóður töpuðu stórkostlega á því falli. Réttlátt væri að við slíkar aðstæður greiddi útgerðin samsvarandi hærra verð fyrir veiðileyfin og niðurskurður á þjónustu hins opinbera við þá sem helst þurfa á henni yrði minni sem því næmi, en það vill hægri stjórnin ekki gera.

Boðað er að auðlegðarskattur verði ekki framlengdur þessu til viðbótar og raforkuskattur sem stóriðjan greiðir að langmestu leyti verði felldur niður. Sama gildir um neysluskatta og þá sem nýta sér hótelþjónustu. Þar er afsláttur einnig gefinn frá almennu þrepi virðisaukaskattsins en óskilgreind gjaldtaka boðuð til að styrkja innviði á ferðamannastöðum sem liggja nú undir skemmdum vegna stórkostlegrar fjölgunar ferðamanna. Nær hefði verið að nýta neysluskattkerfið til tekjuöflunar frekar en að flækja gjaldtökuna. Mikið er rætt um einföldun skattkerfisins en þarna er gripið til flókinnar gjaldtöku eða það virðist eiga að taka þannig gjaldtöku upp, það er ekki ljóst, það er ekki búið að útskýra það nánar fyrir okkur þingmönnum. Stuðla ætti að því að ferðamannaiðnaður sem nú er í miklum vexti byggðist áfram upp án undanþágna. Atvinnugreinin hefur slitið barnsskónum og þarf að skila samfélaginu auknum tekjum í stað þess að vaxa enn frekar upp við óeðlilega umgjörð.

Uppbygging innviða á friðlýstum svæðum er hins vegar skorin niður þó að aðstæður kalli á frekari aðgerðir þar, svo sem við gerð göngustíga til að auðvelda aðgengi og beina um leið umferð á ákveðna staði. Kannski koma breytingar á þessu milli umræðna, en boðaður er niðurskurður á framlagi til þjóðgarðsins á Þingvöllum og til annarra friðlýstra svæða. Einnig er Framkvæmdasjóður ferðamannastaða skorinn niður um 500 milljónir. Þetta stefnuleysi, virðulegi forseti, í umgjörð og uppbyggingu ferðamannaiðnaðarins er með ólíkindum í ljósi þeirrar gífurlegu fjölgunar ferðamanna sem nú á sér stað. Ef einhvern tíma er tækifæri til þess að gera breytingar á rekstrarumhverfi er það í slíku árferði þar sem fjölgun ferðamanna er svo mikil.

Sú byggðastefna sem birtist í þessu helsta stefnuplaggi hægri stjórnarinnar er ekki aðlaðandi fyrir landsbyggðina, svo ekki sé meira sagt. Sóknaráætlun landshluta er slegin af, verkefni sem mikla vinnu er búið að leggja í um allt land og lofaði góðu fyrir markvissa stefnumótun um þróun byggða — þar sem áhrif sveitarstjórnarstigsins er aukið verulega á forgangsröðun og undirbúning fjárlagagerðar.

Einkar athyglisvert er að jöfnun til húshitunar er skorin niður. Það hefur áhrif á kjör fólks sem býr á köldum svæðum. Umræðu um þennan lið höfum við oft tekið í þessum sal og hafa þeir sem nú stýra þjóðarskútunni lagt áherslu á þennan jöfnuð.

Flest verkefni til stuðnings atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni eru tekin niður. Fallið er frá endurbótum vegna starfsemi heilbrigðismála í Stykkishólmi og á Selfossi. Báðar framkvæmdir eru bráðnauðsynlegar og gert var ráð fyrir þeim í fjármálaáætlun fyrri ríkisstjórnar.

Ég heimsótti Heilbrigðisstofnun Suðurlands í síðustu viku og skoðaði aðstæður þar. Ljóst er að lagnirnar í þeim hluta stofnunarinnar sem þarfnast endurbóta eru ónýtar og vandséð hvernig mögulegt er að draga lagfæringarnar lengur. Þetta eru því vanhugsuð sparnaðaráform.

Stefnubreyting er boðuð í skipulagi heilbrigðismála sem hæstv. heilbrigðisráðherra verður að skýra betur en hún virðist ganga út á það að fækka heilbrigðisumdæmum og hefja að nýju niðurskurð í rekstri heilbrigðisstofnana. Í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár er ekki gert ráð fyrir niðurskurði á rekstri heilbrigðisstofnana vegna þess að stjórnvöldum var ljóst að lengra yrði ekki gengið. Lögð voru einnig til aukin framlög til tækjakaupa og til geðheilbrigðismála á Norðausturlandi og á Suðurnesjum. Aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu er eitt stærsta byggðamálið og styrkja verður grunnþjónustuna um landið frekar en að draga úr henni.

Huga þarf að leiðum til að nýta sjúkrahús í nágrenni við höfuðborgarsvæðið til að létta á álagi á Landspítalanum. Til Landspítala þarf að veita a.m.k. 1,5 milljörðum kr. ef vel á að vera. Ég trúi ekki öðru en að legugjöldin verði afnumin og eyði því ekki púðri í þau hér og nú.

Í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir nýjum landspítala sem bætir aðstöðu bæði sjúklinga og starfsfólks og lækkar einnig rekstrarkostnað. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að setjast niður með fulltrúum allra flokka til að finna lausn og leiðir til hrinda þeirri framkvæmd sem fyrst af stað. Þar fer saman hagur þjóðarinnar til lengri tíma og atvinnusköpun til skemmri tíma sem við þurfum á að halda.

Þekkingarsetrið á Kirkjubæjarklaustri er slegið af en miklar vonir voru bundnar við þá framkvæmd af sveitarfélögum sem að því samstarfsverkefni standa. Sveitarfélögin í Vestur-Skaftafellssýslu hafa átt við viðvarandi vanda að stríða eins og hv. alþingismenn þekkja og uppbygging þekkingarseturs er mikilvæg aðgerð til að leysa þann vanda. Mikil vonbrigði eru að ekki skuli hafa verið staðið við áætlanir fyrri ríkisstjórnar hvað þetta varðar.

Bygging verkmenntahúss við Fjölbrautaskóla Suðurlands er einnig slegin af en fjármunir til hennar voru veittir bæði í fjárlögum ársins 2012 og 2013. Sveitarfélögin sem standa að skólanum hafa lagt til hliðar fyrir sínum hlut í byggingunni, hönnunarsamkeppni er lokið og allt til reiðu. Ekkert framlag er til byggingarinnar í fjárlagafrumvarpinu en nemendur, starfsfólk og samfélagið allt bíður eftir nýrri námsaðstöðu sem gefur kost á fjölbreyttu námsframboði í tækni- og iðngreinum, en það er einmitt áherslumál hjá hæstv. ríkisstjórn að fjölga fólki með menntun í tækni- og iðngreinum. Það á líklegast þá ekki við um ungmenni á Suðurlandi því að þar á ekki að bæta námsaðstöðu svo að einmitt þetta geti gerst, að fjölga fólki með menntun í tækni- og iðngreinum. Hrunið leiddi mjög skýrt í ljós hversu verðmæt slík menntun er fyrir þá sem hana hafa. Hún er alþjóðleg og nýtist hvar sem er.

Það eru einnig mikil verðmæti í því fólgin fyrir þjóð að eiga vel menntað fólk. Nú er hins vegar þróunarsjóður fyrir starfsnám 300 millj. kr. skorinn niður. Ef tryggja á hagvöxt til framtíðar verðum við að raða menntun framar en gert er í þessu stefnuplaggi hægri stjórnarinnar. Niðurskurður í framhaldsskólum gengur ekki lengur. Þar er eins og víðar komið að þolmörkum eftir mikla hagræðingu á undanförnum árum. Hagræðing í framhaldsskólum hefur staðið yfir síðan í hinu svokallaða góðæri. Við hrunið var ekki mikla fitu að skera af rekstri þeirra. Einnig gegna skólarnir mikilvægu hlutverki í virkni ungs fólks í atvinnuleit og hafa þeir tekið á móti fleiri nemendum við þrengri kost.

Nú á samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að loka framhaldsskólum landsins á ungt atvinnulaust fólk með því að fella niður stuðning við skólagöngu þess. Framlag vegna náms á framhaldsskólastigi vegna aðstæðna á vinnumarkaði er skorið niður en það átti að greiða fyrir aðgengi ungs fólks í framhaldsskóla og stuðla að fjölbreyttara námsframboði. Sömu sögu er að segja af háskólum landsins. Þar er enn skorið niður í kennslu og rannsóknum sem skapar alvarlegan vanda fyrir nemendur og starfsfólk sem ekki er fyrirséð hvernig leysa megi úr.

Fara þarf betur yfir með hæstv. menntamálaráðherra hver stefnan er í menntamálum. Svo virðist eins og stefnan sé að fækka nemendum bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi með því að gera skólunum ókleift að taka við fleiri nemendum eða sinna þeim sómasamlega sem fyrir eru. Sú stefna mun ekki leiða þjóðina til aukins hagvaxtar sem svo nauðsynlega þarf að tryggja til framtíðar.

Á meðan skólum er lokað á atvinnuleitendur er aðstoð við atvinnulausa til langtíma skorin niður og fallið frá 629 millj. kr. framlagi ríkisins til Starfsendurhæfingarsjóðs.

Atvinnustefnan sem í fjárlagafrumvarpinu birtist er á þá leið að draga skuli úr stuðningi við nýsköpun og skapandi greinar. Samkvæmt lögum um nýsköpunarfyrirtæki geta fyrirtæki fengið frádrátt frá tekjuskatti vegna nýsköpunar- og þróunarverkefna. Sá skattafsláttur er lækkaður úr 20% í 15% og gert ráð fyrir að lækkunin verði um 300 millj. kr. þegar til kemur. Rannsóknarsjóður er tekinn niður, Tækniþróunarsjóður einnig og ýmsir sjóðir sem styðja eiga skapandi greinar.

Í forsætisráðuneytinu er skorin niður fjárveiting vegna græna hagkerfisins um 280 millj. kr., 200 millj. kr. framlag í húsafriðunarsjóð, lækkun er á framlagi um 90 milljónir sem stuðla átti að atvinnuuppbyggingunni og fjölgun vistvænna starfa. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir 201 millj. kr. vegna framlaga til þjóðmenningar.

Tryggingagjaldið er nú lækkað um 1 milljarð kr. og lækkun boðuð í áföngum næstu tvö árin. Það er mun skynsamlegra fyrir þjóð sem er rík að auðlindum að nýta beinar tekjur af auðlindum sínum til þess að lækka slík gjöld eins og tryggingagjaldið sem kemur öllum fyrirtækjum vel, ekki síst smáum og meðalstórum.

Auðvitað er ég ánægð með að barnabæturnar skuli vera inni og vaxtabæturnar; þær eru að vísu frystar, þær eru ekki verðbættar. Það eru hins vegar mikil vonbrigði að fallið sé frá lengingu fæðingarorlofsins.

Ég sakna þess að ekki skuli vera rætt um skuldaniðurfellingar sem var eitt helsta kosningamál Framsóknarflokksins.

Virðulegur forseti. (Forseti hringir.) Það eru ekki miklar líkur á því að heildarjöfnuður (Forseti hringir.) náist nema tekjuöflunarleiðir (Forseti hringir.) verði endurskoðaðar (Forseti hringir.) og einnig á sviði útgjalda.