143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi skýrslu Hagfræðistofnunar sem segir að á Landspítalanum hafi starfsmönnum fækkað um 350 og í undirstofnunum umhverfisráðuneytisins fjölgað um 130 skulum við bara skoða það. Það liggur hins vegar fyrir að búið er að fjölga opinberum starfsmönnum um 200, ég held að menn deili ekki um það, en það er búið að fækka á Landspítalanum um 350.

Ég get ekki heyrt annað á hv. þingmanni en að hún sé sammála um að þetta sé ekki rétt forgangsröðun. Ég er það líka og þá er gott að við getum nálgast hlutina með þeim hætti. Það væri mjög æskilegt.

Ég vek athygli á því að það náttúruverndarfrumvarp sem hæstv. umhverfisráðherra ætlar að fresta og skoða betur hefur til dæmis í för með sér fjölgun opinberra starfsmanna án nokkurs vafa í undirstofnunum umhverfisráðuneytisins, um það er ekki deilt. Það er kostnaðarauki að lágmarki um 105 milljónir á hverju ári þannig að við hljótum að fagna því að við séum að minnsta kosti ekki að fara þá leið.

Varðandi greiðslur sjúklinga þá stórjókst hlutdeildin í tíð síðustu ríkisstjórnar. Svo við tölum bara um spítalann hefur hækkunin verið um 120 milljónir sem sjúklingar greiddu sem komu á spítalann á síðustu fjórum árum. Ef maður fer á göngudeild, og það er ekki af því að mann langi til þess, getur verið að maður þurfi að greiða yfir 30 þús. kr., jafnvel fyrir sömu þjónustu og maður fær ef maður liggur á spítalanum. Sá sem fer á slysadeildina, og það er ekki af því að hann langi til þess, borgar 5.600 kr. Ef maður er á sjúkrahóteli og þarf að liggja þar eitthvað þarf maður að borga 1.200. Mér finnst mikilvægt að við förum yfir þetta. Ég hef ákveðna skoðun á því hvernig við eigum að gera þetta en mér finnst þessi uppsláttur í besta falli ekki vera málefnalegur eða sanngjarn.