143. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:32]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég rakti í máli mínu áðan er ég gríðarlega sáttur við þá niðurstöðu í fjárlagafrumvarpinu að stefnan sé að skila ríkissjóði hallalausum. Við getum ekki rekið okkur á yfirdrætti til lengri tíma, það er dýrt, það er kostnaðarsamt og við verðum að komast í þá stöðu að geta greitt niður skuldir til þess að lækka vaxtabyrði ríkissjóðs.

Ég kom inn á það áðan að það ætti að vera algjörlega ófrávíkjanlegt að við skilum ríkissjóði hallalausum og ef við ætlum að bæta til ákveðinna þátta, sem ég kom inn á í ræðu minni, sem við teljum grunnstoðir verðum við að finna það fjármagn annars staðar. Ég lýsi mig fullkomlega reiðubúinn til þess í vinnu fjárlaganefndar að leita eftir fjármagni annars staðar og ég veit að það er svigrúm á ákveðnum sviðum í samfélaginu til þess að hagræða. Það mun koma fram, m.a. þegar hagræðingarhópurinn skilar tillögum sínum sem eru núna í vinnslu milli hagræðingarhópsins og ráðherranefndar ríkisfjármála, að það er svigrúm til þess að setja í ákveðna þætti en það mun kosta niðurskurð á öðrum sviðum samfélagsins.

Ég næ því miður ekki að svara seinna andsvari hv. þingmanns.