143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna nýja fyrirkomulaginu á umræðu um fjárlögin. Það er afskaplega gott fyrirkomulag og mér sýnist það vera mjög málefnalegt, það verður miklu málefnalegra og menn fá svar frá viðkomandi ráðherra beint í æð.

Mér finnst mjög mikilvægt með frumvarpið að afgangnum, hálfum milljarði, sé haldið í meðförum þingsins vegna þess að við erum að borga 85 milljarða í vexti, eins og bent hefur verið á, og það er ekki nóg að halda fjárlögin heldur verður ríkisreikningurinn að vera í samræmi við fjárlögin. Undanfarin ár, 2009–2011, gerðist það ekki. Það vantaði 101 milljarð, ríkisreikningur var þeim mun hærri eða hallinn meiri en í fjárlögum og fjáraukalögum. Nú er ég ekkert að draga úr því að fyrri ríkisstjórn hafi átt við mjög ramman reip að draga og hún hafi þurft að lyfta grettistaki. Ég tel reyndar að hún hafi farið rangt að, í staðinn fyrir að reyna að skatta þjóðina út úr kreppunni átti hún að reyna að stækka stofnana. Hún gerði það ekki.

Mig langar til að spyrja út í menntamálin. Ég tel að þegar það er kreppa eigi menn að fjárfesta í menntun. Það er leiðin út úr kreppunni, að fjárfesta í menntun. Mér sýnist hæstv. ráðherra einmitt vera á þeirri línu, hann vill ekki skera niður. Hann hefur líka sagt að hann vilji stytta nám og ég er mjög hrifinn af því. Það eru 4.400 manns í árgangi, að minnsta kosti 4.000 manns í hverjum árgangi í framhaldsskólunum. Ef við reiknum kostnaðinn á hvern nemanda eru það 4–5 milljarðar sem hægt væri að spara með því að stytta námið. Fjöldi fólks, allir þeir kennarar sem sumir hverjir vinna alveg frábært starf í skólunum, það væri hægt að gera vel við þá og veita þeim viðurkenningu fyrir gott starf.

Það sem mig langar til að spyrja er um RÚV. Þar á að auka kostnaðinn. Ég spyr: Er ekki eðlilegt að sama krafa sé gerð til RÚV og til dæmis til Landspítalans? Hægt væri að spara eins og einn milljarð þar og setja hann þá í Landspítalann og það breytti ekki fjárlögunum. Mig langar til að spyrja að því.

Svo er það eilífðardæmið sem Harpan er. Þarf ekki að fara að horfast í augu við þann vanda? Þarf ekki að fara að sýna þjóðinni að við eigum að borga þarna? Ég sem Reykvíkingur og skattgreiðandi í ríkinu borga báðum megin. Þarf ekki að fara að sýna að það dæmi kostar óhemju mikið og færa það til bókar? Það eru 670 milljarðar á ári núna og það er ekkert að verða búið.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að standa að því að stytta námið vegna þess að ég held ekki að Íslendingar séu það heimskir að þeir þurfi að vera einu ári lengur að læra það sama og erlendar þjóðir.