143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:29]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Hér eru til umræðu fjárlög næsta árs og ég vil gera grein fyrir þeim þætti í því frumvarpi sem snýr að innanríkisráðuneytinu. Í raun má segja að öll þau mikilvægu verkefni sem ráðuneytið hefur á sínum höndum sameinist í tveimur orðum: öryggi almennings. Það er því markviss stefna okkar að auka öryggi almennings á öllum sviðum og það mætti sannarlega halda hér nokkuð langa tölu um það; um öfluga löggæslu, öfluga strandgæslu, örugga og trausta vegi, örugg fjarskipti, réttláta málsmeðferð, mannréttindi o.s.frv.

Forgangsröðun verkefna innanríkisráðuneytisins ber þess öll merki að þar er forgangsraðað í þágu öryggis almennings. Útfærsla ráðuneytisins á aðhaldsaðgerðum er skýr. Þannig var ekki farið í flatan niðurskurð heldur farið yfir hvert einasta verkefni og forgangsraðað mjög ákveðið í þágu þess sem mestu skiptir. Á flest verkefni var hins vegar gerð um 0,75% aðhaldskrafa en sum verkefni eru þó undanskilin þar sem ekki er um að ræða eiginlega rekstrarliði. Þar má nefna Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, markaðar tekjur Vegagerðarinnar, kostnað vegna meðlaga, gjafsóknar, sanngirnisbóta vegna misgjörða á vistheimilum o.fl.

Nær allar hækkanir eða útgjaldaaukningar koma því til vegna launa eða verðlagshækkana. Í frumvarpinu er því ekki gert ráð fyrir raunaukningu á næsta ári. Ráðuneytinu var hins vegar gert að hagræða um 600 millj. kr. en þar munar mestu um hagræðingu í rekstri vegna sameiningar samgöngustofnana, tilfærsluframlög vegna samnings um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem stofnkostnaður á framlögum til upplýsingasamfélagsins lækkar, svo að dæmi séu tekin. Loks má nefna að gert er ráð fyrir því að verkefni talsmanns neytenda sameinist Neytendastofu strax á næsta ári.

Hæstv. forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram það markmið að efla almenna löggæslu í landinu og líkt og þingmenn þekkja svo vel byggir sú stefnuyfirlýsing og sú áætlun að mestu á vinnu þverpólitískrar nefndar frá síðasta kjörtímabili og í fjárlagafrumvarpinu er í samræmi við þessa skýru stefnu ríkisstjórnarinnar gert ráð fyrir rúmlega 500 millj. kr. framlagi til eflingar löggæslu hér á landi.

Hæstv. forseti. Ég vil leggja áherslu á að það er gert með því að forgangsraða innan þeirra málaflokka sem heyra undir innanríkisráðuneytið sem þýðir um leið að innan ákveðinna þátta er hagrætt meira en nefnt var hér að framan. Ég held og veit að við getum öll verið sammála um mikilvægi þessa verkefnis. Ég mun á næstu dögum skipa nefnd þingmanna, undir forustu hv. þm. Vilhjálms Árnasonar, sem fær það hlutverk að gera tillögur að ráðstöfun þessa fjármagns á milli embætta, verkefna og landsvæða.

Eins og ég hef áður greint frá hér úr þessum ræðustóli þá höfum við í sumar í innanríkisráðuneytinu unnið að því að greina störf lögreglunnar, fá skýra sýn á öryggis- og þjónustustig, mannaflaþörf og fleira þannig að hægt sé að greina rekstrargrundvöll lögreglustofnana. Það má lesa úr þeim tölum sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu að þarna liggur okkar áhersla. Fyrir utan það að veita fjármagn til að efla löggæslu er einnig gert ráð fyrir framlagi til að sporna við skipulagðri glæpastarfsemi, auknu framlagi til rannsóknar á kynferðisbrotum og þá sérstaklega gagnvart börnum þar sem bætt er við tæplega 100 millj. kr. Þá eru framlög til opinberrar réttaraðstoðar aukin um 150 millj. kr. og kemur það fyrst og fremst til vegna rýmkaðra reglna um gjafsóknir sem samþykktar voru á síðasta þingi. Auk þess munum við halda áfram með byggingu nýs fangelsis eins og gert hafði verið ráð fyrir en fjárheimildir fyrir fangelsið hafa hins vegar þegar verið lækkaðar fyrir árið í ár.

Það má einnig minna á að í frumvarpinu er veittur stofnkostnaður fyrir um 850 millj. kr. vegna vegtengingar við nýtt athafnasvæði á Bakka við Húsavík og tæpar 350 millj. kr. til stækkunar Húsavíkurhafnar. Þá hækkar framlag vegna Norðfjarðarganga um 670 millj. kr. Til viðbótar við það sem hér hefur komið fram má nefna að í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir framlagi til Landhelgisgæslunnar sem ætlað er að tryggja veru lækna um borð í þyrlum Gæslunnar. Það er mjög mikilvægt að við tryggjum öryggi, fyrst og fremst þeirra sem reiða sig á þjónustu þyrlusveitar Gæslunnar en ekki síður öryggi þyrlusveitarinnar sjálfrar. Þar tel ég hlutverk lækna í þyrlusveitinni vega þungt.

Virðulegur forseti. Hér hefur verið stiklað á stóru um fjárheimildir innanríkisráðuneytisins í fjárlögum næsta árs. Ég vil að endingu nefna að ýmis stór verkefni eru í farvatninu innan ráðuneytisins sem munu tryggja enn fleiri tækifæri til góðs reksturs á næstu árum. Frumvarp til laga um fækkun sýslumanna og lögreglustjóra er dæmi um slíkar umbætur auk þess sem til skoðunar er betri nýting fjármuna er tengjast þjónustu við hælisleitendur þar sem málsmeðferð verður flýtt, sem getur leitt af sér minni kostnað, en einnig betri þjónustu við þá sem eiga rétt á pólitísku hæli.

Að auki vil ég nefna nauðsyn þess að hv. Alþingi ræði með opnum huga um aðkomu annarra en ríkisvaldsins að kostnaði vegna uppbyggingar innviða, líkt og í vegagerð og samgöngum. Þar eigum við að líta til góðrar reynslu annarra þjóða og setja þá meginreglu að hægt sé að ganga til slíks samstarfs við einkaaðila og fjárfesta þegar til staðar er val um aðra kosti í samgöngum.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum óska eftir góðri samvinnu við þingmenn við að tryggja öryggi almennings í landinu. Ég hlakka til að taka þátt í umræðunni og verð hér til svara um einstaka liði er lúta að málefnum ráðuneytisins.