143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir góð svör í kvöld, þar kom ýmislegt mjög fróðlegt og gagnlegt fram. Vegna þess að nokkuð mikið hefur verið kvartað hérna í dag þá langar mig að fagna því sérstaklega að fjárheimildir til lögreglunnar séu auknar, meðal annars vegna þess að ég óttast að fjársvelt lögregla sé líklegri til þess að grípa til harkalegri aðgerða en þörf er á en ef meira væri af lögreglumönnum, launin hærri og starfsskilyrði almennt betri. Þess vegna fagna ég því alveg sérstaklega.

En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um hælisleitendur. Eins og sagt var áðan þá hafa farið 555 millj. kr. í hælisleitendur á yfirstandandi ári. Það er ansi há upphæð. En ég velti fyrir mér þar sem í Útlendingastofnun, sem meðhöndlar slík mál, er greinileg og viðvarandi mannekla, hvort til greina komi að auka fjárútlát til Útlendingastofnunar til þess að minnka málafjöldann sjálfan, hvort það væri ekki ágætisfjárfesting. Jafnvel þótt verkefnahópur hafi tekið til starfa á sínum tíma til að endurskipuleggja málefni hælisleitenda virðist fókusinn þar vera á málsmeðferðartíma, sem er frábært, þ.e. að skýra og einfalda verklagsreglur, veita mannúðlegri meðferð fyrir hælisleitendur og nýta fjármuni betur. Það er allt gott og blessað og þarft og frábært og ég hlakka til að sjá hvað verður úr því, en einhvern veginn sýnist mér frekar augljóst að ef við settum til dæmis 100 milljónir aukalega í Útlendingastofnun hlyti það að leysa heilmikinn vanda fyrir marga hælisleitendur sem mundi þá spara peninga á móti.

Ég velti fyrir mér hvort sá möguleiki hafi sérstaklega verið skoðaður að auka framlag til Útlendingastofnunar. Það hefur heldur ekki hækkað mikið í áranna rás. Það hækkar aðeins núna, það var 193,7 millj. kr. en er núna 198,3 millj. kr. Og vegna þess að við lifum alltaf í alþjóðlegri heimi hefði ég haldið að það sé alveg kominn tími til að bæta aðeins við hjá Útlendingastofnun almennt, burt séð frá hælisleitendum. Það er reyndar ekki umræðuefni hér og nú því að hérna ætlum við að jú að spara peninga, en þess vegna sting ég samt upp á þessu við þetta tilefni, þ.e. vegna þess að mér sýnist þarna vera tækifæri til þess að spara mjög mikinn kostnað fyrir mjög lítinn pening. Ég velti fyrir mér afstöðu hæstv. ráðherra til þess.