143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[21:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Af því að við ræddum aðeins áðan framtíðina og nokkur næstu ár — sem við erum greinilega hjartanlega sammála um, ég og hæstv. fjármálaráðherra, að er okkur áhyggjuefni — vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er þess að vænta að fram komi sjálfstæð og ítarleg ríkisfjármálaáætlun í sjálfstæðri skýrslu? Nú veit ég að líta má á fyrra heftið, litla hefti fjárlagafrumvarpsins, sem vísi að slíku en það er ekki sett fram sem sjálfstæð áætlun og ekki með jafn ítarlegum rökstuðningi og textum og við reyndum að gera 2009, 2011 og 2012 — höfðum myndir af fallegum fjöllum í ónefndum kjördæmum framan á heftunum, Herðubreið og Keili. Hæstv. ráðherra gæti haft einhvern hólinn við Garðabæ sem mundi prýða ritið. Ég mundi fagna því og ég vonast til að svo verði því að það er gott að fá slíkt plagg með ítarlegum tölugögnum og öðru slíku.

Varðandi fjárfestingaráætlunina þá mundi ég að mörgu leyti alveg skilja og kaupa rök hæstv. ráðherra ef þetta hefðu verið útgjöld í rekstur eða eiginlega svona illa ígrunduð innspýting í útgjöld ríkisins bara á árinu fyrir kosningar, en það var ekki svoleiðis. Eftir vandlegan undirbúning, skýrslugerð og mikið samráð fæddist þessi fjárfestingaráætlun og þetta er, herra forseti, „fjárfestingaráætlun“. Og í hverju? Í rannsóknum, í þróun, í tækni, í nýsköpun, skapandi greinum og þeim sprotum sem við vonuðumst til að við værum að hjálpa af stað og mundu síðan hjálpa okkur á komandi árum í gegnum aukna verðmætasköpun og umsvif. Og það eru gríðarlegir möguleikar þarna. Tökum hönnun sem menn voru fyrir ekkert löngu kannski ekkert að flokka sem mikilvægan þátt í atvinnulífi og þróun. 45 milljóna sjóður í að hlúa að hönnun og koma henni betur (Forseti hringir.) á framfæri sem mikilvægum þætti nýsköpunar og þróunar — höfum við virkilega ekki efni á því að halda honum áfram?