143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

staða bankakerfisins.

[13:38]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi spurninguna hvað sé eðlilegt hámarkshlutfall þegar kemur að eignarhlut í viðskiptabönkum þá ætla ég svo sem ekki að nefna eina ákveðna tölu en það er rétt í þessu eins og öðru að menn líti til reynslu, ekki hvað síst nágrannalandanna sem byggðu upp bankakerfi sitt eftir verulegar þrengingar, hálfgert hrun í upphafi tíunda áratugarins, svo það er ekkert óeðlilegt sem hv. þingmaður nefndi að líta til þeirra.

Hvað varðar áætlun um afnám hafta er eðli málsins samkvæmt, eins og ég veit að hv. þingmaður skilur vel, ekki hægt að útlista nákvæmlega með hvaða hætti höft verða afnumin. Hins vegar er vilji til að halda áfram starfsemi nefndar sem allir stjórnmálaflokkar á Alþingi áttu fulltrúa í. Sú nefnd var að vísu ekki upplýst á sínum tíma um gang mála en nú stendur til að gera breytingu þar á og halda þessari nefnd upplýstri um gang mála.