143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

atvinnustefna og samráð.

[13:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fjölmargar fyrirspurnir hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur um sóknaráætlanir og samráð þar að lútandi. Sóknaráætlanir eru ekki á mínu borði eins og sakir standa, það er til skoðunar hvar byggðamálin verða hýst undir einum hatti sérstaklega. Við erum með þetta til skoðunar og það mun skýrast á næstu dögum og vikum.

Varðandi samráð — við tókum þetta samtal hérna fyrir allstuttu síðan, bæði er varðar veiðigjöldin og fiskveiðistjórnarkerfið — þá byggir það á sáttanefndinni svokölluðu frá haustinu 2010 þar sem sjónarmið allra komu fram og það á að vinna áfram með það, auk þess sem ég hef lagt mig fram um að hitta sem flesta hagsmunaaðila innan greinarinnar og tengda greininni sem og atvinnuveganefnd. Við áttum ágætan fund í morgun þar sem við ræddum meðal annars þetta, ræddum það fyrirkomulag hvernig við gætum háttað samráði við atvinnuveganefnd og þar með alla flokka þingsins, bæði er varðar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem og veiðigjöldum.

Varðandi fjárfestingarstefnu fyrrverandi ríkisstjórnar og fjármögnun hennar finnst mér svolítið holur hljómur í þessu tali, talandi um störf, þegar ljóst var að þau veiðigjöld sem lögð voru á minni útgerðir voru að ganga af þeim dauðum. Þar með hefðu tapast fjölmörg störf. Þá voru hins vegar engin störf orðin til með fjárfestingarstefnu ríkisstjórnarinnar. Sum hver þeirra áforma hefðu, eins og kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra, skilað afar litlu í uppbyggingu samfélagsins og arðsemi. Það var því kannski meiri eyðslufjárfestingarstefna en endilega uppbyggingarfjárfestingarstefna þó að það væri auðvitað misjafnt eftir atvikum.

Það er ekki hægt að setja þetta mál upp með þeim hætti (Forseti hringir.) að hér hafi tapast störf. Við komum hins vegar í veg fyrir að það töpuðust fjölmörg störf hringinn í kringum landið með því að aðlaga veiðigjöldin.