143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[14:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get gert þá játningu hér að ég vissi að þessi umræða færi fram nákvæmlega með þessum hætti algerlega óháð því hvernig frumvarpið liti út að efninu til. Það var algjörlega fyrir séð að menn mundu einhvern veginn reyna að troða þessum rökum inn í þann veruleika sem fjárlagafrumvarpið sýnir og tekjuöflunarfrumvarpið sem því fylgir.

Það heitir núna að verið sé að hygla sérstaklega þeim sem best hafa það þegar laun sem losa 240 þús. kr. fá á sig lægri tekjuskatt. Ég vek athygli á því að meðaltekjur í landinu eru rétt undir 400 þús. kr. Það er ekkert gefið fyrir það að settar eru út um 8.500 milljónir til þeirra sem eru háðir afkomu úr bótakerfunum, elli- og örorkulífeyrisþega. Enginn útgjaldaflokkur í frumvarpinu vex meira en einmitt sá flokkur. Ef við mundum raða í forgangsröðun eftir því hvað vex mest af útgjaldaliðum eru það bótaflokkarnir sem vaxa mest. Þetta er töluvert hærri fjárhæð en sú sem við erum hér að ræða í tengslum við tekjuskattinn.

Og nú er ég ekki einu sinni byrjaður að ræða vaxtabæturnar og barnabæturnar sem hafa hækkað verulega. Barnabætur hækkuðu á árinu 2013 um um það bil 23–24%, sú nýlega hækkun er varin í frumvarpinu. Það er ekki útgjaldalaust að halda þeirri nýju breytingu á barnabótakerfinu við en sýnir forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar.

Allir þessir þættir sem ég hef hér nefnt, (HHj: Forgangsröðun …) barnabætur, vaxtabætur og bætur úr almannatryggingakerfinu, höfðu sætt skerðingum í tíð fyrri ríkisstjórnar. Og fyrst hv. þingmaður spurði um persónuafsláttinn hafði hann líka verið skertur í tíð fyrri ríkisstjórnar (Forseti hringir.) en vísitölutengingu hans er viðhaldið af þessari ríkisstjórn.