143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[16:25]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að tala eins og það sé fyrst núna sem mönnum detti í hug að skattleggja banka er dálítið sérstakt. Nú man ég ekki nákvæmlega hvernig stjórnarandstaðan brást hér við þegar við komum upphaflega með bankaskattinn, ég held að það hafi verið sæmileg samstaða um hann. Þegar við svo lögðum á fjársýsluskattinn var eitthvert ramakvein rekið upp ef ég man rétt. Eigum við aðeins að fara yfir það hvað fjármálakerfið er þó að borga í skatta á álögur og gjöld á þessum árum? Það er kominn til sögunnar bankaskattur sem er nýr. Það er kominn til sögunnar fjársýsluskattur upp á 6–7 milljarða sem er nýr. Þeir borga mun hærra gjald til Fjármálaeftirlitsins, samanber umfang þess. Þeir borga kostnaðinn af embætti umboðsmanns skuldara. Bankarnir borguðu tvö ár í röð á þriðja milljarð króna í sérstakar vaxtaniðurgreiðslur 2011 og 2012. Þannig að við skulum ekki tala eins og það hafi ekki verið vilji til staðar í fyrri ríkisstjórn að leggja eitthvað á fjármálakerfið, það var heldur betur gert. Það var hins vegar tæknilega óframkvæmanlegt að koma á svona bankaskatti á fyrstu missirunum eftir að búin urðu til, það viðurkenna auðvitað allir. Álitamálið er hversu viðráðanlegt það er í dag, hvort það hefði hugsanlega verið hægt í fyrra, það veit maður ekki en það eru meira að segja efasemdir uppi um það.

Auðvitað liggur ekki á að framlengja orkuskattinn, en ég tel að menn eigi að leita leiða til þess að ná arði af orkuauðlindunum með einhverjum hætti. Það er rangt að verið sé að svíkja eitthvert samkomulag. Samkomulagið fólst í því að við hefðum álagninguna tímabundna, en það var alltaf tekið fram í þeim samskiptum að tekjur af því tagi þyrftum við inn í ríkisfjármálaáætlunina þannig að ef eitt færi út þyrfti annað að koma í staðinn. Það vissu til dæmis aðilar vinnumarkaðarins alltaf, að þessar tímabundnu ráðstafanir voru allar því marki brenndar. Það er ekki endilega víst að skattlagningin verði nákvæmlega svona, en eitthvað þarf að koma á móti því sem við missum út í tekjur.

Ég gæti tekið vel undir það ef boðið væri upp hér að það þyrfti að setjast yfir og ég mæli með því að hæstv. fjármálaráðherra íhugi að setja starfshóp í að skoða í heild sinni að samræma meðferð fjármagns og eignatekna og taka allt dæmið (Forseti hringir.) undir, þ.e. fjármagnstekjuskattinn og auðlegðarskatt eða eignarskatta, hvernig húsaleigutekjur eru skattaðar o.s.frv. Það væri skynsamlegt. Það dettur engum í hug að halda því fram að núverandi fyrirkomulag skattlagningar á alla þá þætti sé nákvæmlega eins og það eigi að vera.