143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[18:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um stimpilgjald. Í því er lagt til að gildandi lög um stimpilgjald verði felld brott í heild og að í þeirra stað taki gildi ný heildarlög um stimpilgjald. Gjaldskyldan samkvæmt frumvarpinu nær einungis til þeirra skjala er varða eigendaskipti á fasteignum hér á landi og skipum yfir 5 brúttótonnum sem skrásett eru hér á landi, sem er mikil einföldun frá gildandi lögum.

Þetta hefur í för með sér að ekki verður lengur skylt að greiða stimpilgjald af lánsskjölum, þar með talið skilmálabreytingum, eða af hlutabréfum og stofnfé. Þá mun einnig falla brott skylda til að greiða stimpilgjald af kaupmálum, vátryggingarsamningum, aðfarar- og kyrrsetningargerðum, leigusamningum um jarðir og lóðir, heimildarskjölum um veiðiréttindi og af öðrum skjölum sem leggja ítök, skyldur og kvaðir á annarra eign.

Í frumvarpinu er lagt til að stimpilgjaldið miðist almennt við kaupverð fasteigna og skipa og að gjaldhlutfallið verði 0,8% þegar rétthafi er einstaklingur en 1,6% þegar rétthafi er lögaðili.

Þá er lagt til í frumvarpinu að einungis sýslumenn innheimti gjaldið og að þeir gefi út kvittun til staðfestingar greiðslunni. Þar með mun bæði ástimplun með stimpilmerkjavél og stimpilmerki á stimpilskyld skjöl heyra sögunni til. Jafnframt er lagt til að ráðherra geti falið tilteknu embætti sýslumanns innheimtu stimpilgjalds í þeim tilgangi að tryggja samræmda innheimtu á landsvísu.

Segja má að tilefni frumvarps að nýjum stimpilgjaldalögum sé í grundvallaratriðum tvíþætt. Í fyrsta lagi er löngu tímabært að endurskoða gildandi lög um stimpilgjald í heild sinni í takt við breytt viðskiptaumhverfi og viðurkennd samkeppnissjónarmið. Gildandi lög kveða á um stimplun fjölmargra skjala með úreltum hætti, auk þess sem innheimtan er óhefðbundin, dreifð á nokkra aðila og ekki nægilega samræmd. Þá eru lögin torskilin og að mörgu leyti úrelt og gætir jafnvel nokkurrar réttaróvissu varðandi viss atriði gildandi laga sem brýnt er að laga.

Í öðru lagi skuldbundu íslensk stjórnvöld sig til þess að endurskoða lög um stimpilgjald í aðdraganda ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisstyrki til Íslandsbanka, Arion banka og Landsbanka. Beindust athugasemdir ESA einkum að töku stimpilgjalda vegna skilmálabreytinga á fasteigna- og bílalánum einstaklinga sem stofnunin taldi samkeppnishamlandi. Við þessum athugasemdum hefur þegar verið brugðist með lagabreytingum en skuldbinding íslenska ríkisins náði engu að síður til heildarendurskoðunar á lögum um stimpilgjald.

Þann 15. apríl 2013 var formlega gengið frá skipun starfshóps sem falin var heildarendurskoðun á lögum um stimpilgjald og átti hann að ljúka störfum 1. nóvember 2013. Var starfi hópsins stýrt af fulltrúa ráðuneytisins en auk hans sátu í hópnum fulltrúar frá Fjársýslu ríkisins, sýslumanninum í Reykjavík, Þjóðskrá Íslands og Samtökum fjármálafyrirtækja.

Þegar ég hóf störf sem fjármála- og efnahagsráðherra ákvað ég að endurskilgreina verkefni starfshópsins og hraða vinnu hans. Var það gert með nýju skipunarbréfi þar sem sama starfshópi var falið að kanna sérstaklega leiðir til að afnema stimpilgjald af lánsskjölum og að skila sínum niðurstöðum eigi síðar en 20. september 2013. Þær niðurstöður liggja nú fyrir ásamt frumvarpsdrögum og skýrslu þar sem varpað er ljósi á ýmsa vankanta á gildandi lögum og framkvæmd þeirra. Það frumvarp sem hér er kynnt byggist að verulegu leyti á tillögum starfshópsins.

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á viðskiptaumhverfi almennt, eins og ég nefndi áðan, þar með talið á gerð og tegundum skjala. Rafræn skjöl eru orðin algeng í notkun en þau þekktust ekki við setningu gildandi laga. Meðal annars af þessum sökum er túlkun og framkvæmd laganna orðin óljósari en áður. Auk þess skortir á að framkvæmd þeirra sé nægilega samræmd á landsvísu, og eftirliti með innheimtu gjaldsins er ábótavant. Því verður að telja að brýna þörf beri til þess að endurskoða gildandi lög um stimpilgjald heildstætt.

Með frumvarpinu er lögð til mun einfaldari og gagnsærri gjaldtaka en nú er. Í því nær gjaldskyldan eingöngu til eigendaskipta á fasteignum hér á landi og skipum yfir stærðarmörkum sem ákveðin eru í frumvarpinu. Óbreytt er að eigendaskipti vegna arfs og búskipta eru undanþegin gjaldinu. Svipuð gjaldtaka og kveðið er á um í frumvarpinu tíðkast í helstu nágrannaríkjum vegna eigendaskipta á fasteignum. Í greinargerð með frumvarpinu er að finna fróðlega úttekt á því hvernig slíkri gjaldtöku er háttað, bæði á Norðurlöndum, Bretlandi og víðar. Það verður að telja að gjaldhlutfallið samkvæmt frumvarpinu sé hóflegt samanborið við nágrannaríkin, enda þótt það geti falið í sér hækkun í vissum tilfellum.

Við vinnslu frumvarpsins var miðað við að stimpilgjaldið skilaði sömu tekjum og áætlað hafði verið áður. Frumvarpið er því ekki tekjuöflunaraðgerð sem slíkt heldur er með því stefnt að einfaldara og gagnsærra kerfi en nú gildir sem skilar sömu tekjum í ríkissjóð.

Við útreikning tekna af gjaldinu var miðað við sömu forsendur og undanfarin ár enda þótt frumvarpið miði almennt við gjaldtöku af kaupverði í fasteignaviðskiptum en ekki fasteignamatsverði. Eftir að frumvarpið kom fram hafa komið fram nokkrar ábendingar um þetta atriði og eftir nánari skoðun tel ég að það gæti verið til einföldunar í framkvæmd, a.m.k. enn um sinn, að miða gjaldtökuna áfram við fasteignamatsverð í fasteignaviðskiptum líkt og gildandi lög kveða á um. Það var reyndar tillaga starfshópsins og þá yrði kaupverðið ekki lagt til grundvallar eins og lagt er til í frumvarpinu. Ég mundi vilja leggja það til við hv. efnahags- og viðskiptanefnd að hún taki þetta atriði til sérstakrar skoðunar. Það er ekki augljóst hvor leiðin er hentugri í framkvæmd en þetta er meðal þeirra atriða sem ég tel að hljóti að koma til sérstakrar skoðunar. Verði þessu breytt væri um afar einfalda breytingu á 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins að ræða.

Í þessu samhengi er um leið mikilvægt að leggja mat á það hvor gjaldstofninn væri líklegri til að skila auknum tekjum og haldi menn fast við það markmið, sem hér er lagt upp með, að frumvarpið verði í sjálfu sér hlutlaust hvað varðar tekjuöflun fyrir ríkið miðað við gildandi lög kann eftir atvikum að vera ástæða til að skoða þá prósentu í leiðinni. Þetta legg ég til að verði sérstaklega skoðað í nefndinni.

Eins og augljóst má vera er mikil réttarbót fólgin í því að stimpilgjaldið er fellt að lánsskjölum. Það opnar fyrir endurfjármögnun lána þegar einstaklingur eða fjölskylda leitar eftir betri kjörum með því að fá lán á lægri vöxtum hjá sömu fjármálastofnun eða eftir atvikum hjá annarri fjármálastofnun. Sá gerningur sem slíkur væri stimpilgjaldsskyldur í dag og þegar við berum saman við áhrifin af þessu frumvarpi er augljóst að frumvarpið hefur áhrif til lækkunar. Það eru ekki bara fólgin í þessu samkeppnisaukandi áhrif heldur hefur þetta beint með fjárhagslega hagsmuni heimilanna að gera. Á hinn bóginn er rétt að hafa í huga að þegar fjölskylda kaupir eign án þess að hún hyggist þinglýsa lánsskjölum í leiðinni er stimpilgjaldið á því sem stimpilgjaldsskylt er að hækka. Í slíku tilfelli eykst gjaldtakan. Slíkt gæti átt við þegar eign er keypt og lán sem þegar hefur verið þinglýst á eignina eru yfirtekin eða ef keypt er eign þar sem kaupin eru að fullu fjármögnuð með eiginfjárframlagi. Þá er ekki um nein lánsskjöl að ræða en stimpilgjald vegna afsalsins eða kaupsamningsins er þá hærra miðað við það sem gilt hefur fram til þessa, enda hlaut það að vera þegar gjaldið er fellt niður af lánsskjölum og ýmsum öðrum gerningum að það sé einhvers staðar annars staðar að hækka.

Heilt yfir tel ég að í frumvarpinu felist mikil réttarbót, mikil lagahreinsun. Ég tiltek sérstaklega þetta sem snýr að lánsskjölunum að þeim atriðum sem í raun eru orðin úrelt í framkvæmdinni vegna breytinga sem hafa orðið með auknum rafrænum viðskiptum. Eins og sjá má í greinargerð með frumvarpinu innheimtast illa ýmsar tekjur af sumum skjalanna. Ég nefni sem dæmi hlutabréfin og stofnbréf ýmiss konar skila tiltölulega litlum tekjum miðað við hvað gjaldstofninn ætti að vera stór. Það sýnir að í framkvæmd er erfitt að innheimta gjaldið þótt lögin eigi að vera nokkuð skýr. Af þeirri ástæðu er þessi breyting lögð til. Það munu menn einnig sjá, þegar greinargerðin er lesin með frumvarpinu, að þetta gjald er mjög breytilegt frá einum stað til annars, þ.e. milli landa. Sums staðar er stimpilgjaldið á afsöl og kaupsamninga látið hækka eftir því sem viðskiptin snúast um verðmætari eign. Sums staðar hafa tekjur viðkomandi einnig áhrif en hægt er að segja það sem nokkuð almenna reglu að gjaldið er alls staðar hærra en lagt er upp með hér.

Ég legg til að málið gangi til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og til 2. umr.