143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[19:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það andlag sem hér kemur til gjaldtöku af fannst mér rétt að deila því með þinginu að frá því að málið var lagt fram höfum við fengið ábendingar í ráðuneytinu. Ég hefði svo sem alveg getað látið það eiga sig og látið málið standa. Sömu ábendingar frá sömu aðilum hefðu þá væntanlega komið upp í nefndinni, en mér fannst sjálfsagt að láta þess getið að mér finnst þetta vera ákveðið álitamál. Við tökum af skarið með frumvarpinu en þetta er ekki þess háttar atriði að önnur hvor aðferðin sé rétt og hin röng. Þetta er ákveðið matsatriði.

Varðandi áherslur okkar í Sjálfstæðisflokknum þá höfum við lagt áherslu á að lækka stimpilgjöldin af fasteignaviðskiptum og í frumvarpinu er stigið mjög mikilvægt skref sem felur í sér að menn geta endurfjármagnað lán á húsnæði án þess að ríkið taki sérstakt gjald í tilefni af því. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að eftir lifa stimpilgjöldin af afsölum og kaupsamningum. Í tengslum við fjárlagafrumvarpið koma síðan fram aðrar áherslur nýrrar ríkisstjórnar og Sjálfstæðisflokksins þar með og ég hef aldrei skorast undan því að viðurkenna að þegar allt er samantekið birtist ákveðin forgangsröðun hjá okkur. Eftir sem áður verður stimpilgjaldið enn um sinn ákveðinn þröskuldur í fasteignaviðskiptum, það mun hafa ákveðin áhrif á verðmyndun á fasteignamarkaði en ekki samt meiri en svo að við teljumst vera með mjög hóflegt stimpilgjald af afsölum og kaupsamningum þegar borið er saman við aðrar þjóðir.