143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[19:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa mjög langt mál um þetta frumvarp enda dagur að kveldi kominn og búin að eiga sér stað hér nokkuð upplýsandi skoðanaskipti í andsvörum um málið. Þetta er heilmikil tiltekt á því lagafyrirkomulagi sem verið hefur og til mikillar einföldunar, það er í öllu falli ljóst og hlýtur að teljast frekar kostur en hitt. Það má sömuleiðis færa þessu frumvarpi það til málsbóta að þetta er þáttur sem menn hafa oft bent á í sambandi við samkeppni um fjármálaþjónustu, að þetta liðki fyrir henni, að auðvelda fólki að færa sig með sín viðskipti, greiða upp lán og taka önnur ný og hvað það nú er. Þannig að það er ýmislegt jákvætt við þetta.

Varðandi álitamálið um gjaldstofninn, hvort það eigi að vera eignayfirfærsluverðið í viðskiptunum eða fasteignamat, þá finnst mér nú að hið eiginlega verðgildi sé eðlilegri skattstofn. Vissulega er þægilegt að fletta upp fasteignamatinu, það er einfalt, en hitt er eðlilegra skattandlag að mínu mati þannig að ég hefði haft tilhneigingu til að hafa ákvæðin eins og þau eru sett fram í frumvarpinu nema manni verði sýnt fram á að verulegt hagræði sé að hinu.

En það er alveg ljóst að með því markmiði að viðhalda tekjum ríkisins upp á 4,3 milljarða, eða hvað það nú er, þá verður hér ákveðin tilfærsla og hún verður í einhverjum mæli yfir á þá einstaklinga sem kaupa fasteign. Það kemur þarna ívið hærri þröskuldur með hærri prósentu og í þeim tilvikum að menn séu ekki að gefa út ný lánsskjöl samhliða fasteignakaupunum, annaðhvort með því að þeir yfirtaki lán að mestu leyti eða staðgreiði kaupverðið einhvern veginn, þá verður þetta hærra en kostnaðurinn hefur verið. Sömuleiðis verður einhver tilfærsla í gjöldum lögaðilanna. Þetta leggst ekki endilega á þá sömu þó að lögaðilar í heild sinni leggi áfram sitt af mörkum í þessu tilviki.

Það kemur reyndar hér fram að þetta er um 900 millj. kr. hækkun á einstaklingana í skilningi þeirra fasteignaviðskipta eða veltunnar á fasteignamarkaðinum eins og hún er. Hvað þeir sjálfir, eða einhverjir aðrir, sleppa við á móti er svo sjálfsagt erfiðara að reikna út. En það væri engu að síður ástæða til að fara yfir það. Ég held að í umfjöllun nefndarinnar hljóti að vera mikilvægt að kalla til aðila á fasteignamarkaðinum og velta fyrir sér hvaða áhrif þetta mögulega getur haft þar.

Varðandi Íbúðalánasjóð þá er svona tæpt hér í framhjáhlaupi á gríðarlega stóru máli sem er staðan þar og uppgreiðsluáhættan sem Íbúðalánasjóður býr við enn þann dag í dag, tiltölulega óvarinn vegna þeirra hrottalegu mistaka sem gerð voru í málefnum hans á árinu 2004, ef ég man rétt, þegar fjármögnun hans var breytt í þá veru að hann gat ekki greitt upp á móti því sem greitt var upp hjá honum. Auðvitað er þetta ekki stórmál í því stóra samhengi nema hvað þetta kann að hafa þarna einhver áhrif á og ýtir enn frekar á það að menn komist eitthvað áleiðis með að skoða hvernig á að takast á við málefni og vanda Íbúðalánasjóðs til framtíðar litið.

Virðulegur forseti. Ég sé eins og ég segi ekki ástæðu til að hafa um þetta mörg orð, ég á kost á því að skoða þetta mál í þingnefnd. Ég sé ýmsa kosti við það að taka til í þessu stimpilgjaldakerfi en ég er svona frekar íhaldssamur á köflum og sé enga ástæðu til að vera að breyta nafninu. Mér finnst það líka svona skemmtilegra að fjalla um frumvarp frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, formanni Sjálfstæðisflokksins, sem framlengir og setur í nýjan lagabúning ákvæði um stimpilgjöld.