143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:20]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég hef eins og margir aðrir, og sennilega allir hér inni, miklar áhyggjur af stöðu Landspítalans. Ég hef lagt það á mig að kynna mér málið aðeins betur, tala við lækna á spítalanum, hef átt stutt samtal við forstjórann nýja. Eiginlega er niðurstaðan sú að við komumst ekki hjá því að bæta í. Við komumst ekki hjá því að bæta í sennilega að minnsta kosti 3 milljörðum á ári næstu árin. Það er bara þannig.

Ég skora á þingheim að taka sig saman og framkvæma þetta en þó með þeim hætti að við rekum samt hallalaus fjárlög. Við verðum að hafa kjark og þor til að forgangsraða, ég veit þetta er óvinsælt orð en við verðum að gera það. Það er ekki einu sinni til húsnæði fyrir tækin sem þarf að kaupa. Við verðum líka að fara í þau mál.

Sennilega getum við sloppið með 3–5 milljarða næstu árin, einhvers staðar á því bilinu. Í því getur líka falist hagræðing til lengri tíma — og við verðum að gera þetta. En við verðum að vanda okkur við þetta líka og við verðum að vita í hvað þessi viðbót á að fara. Spítalinn getur ekki notað hana í hvað sem er. Við þurfum að gera eitthvert samkomulag um að þetta sé gert og notað í þessum tilgangi og það eingöngu vegna þess að við sjáum fyrir okkur að það sé nauðsynlegt og það muni borga sig til lengri tíma. Við verðum að gera það.