143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

staða Landspítalans.

[15:49]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég þakka sérstaklega þessa þörfu umræðu um þetta mál sem við höfum sem betur fer verið að ræða. Mér heyrist á öllu að fólk úr öllum flokkum sé komið á þá skoðun að sú staða sem uppi er hjá Landspítalanum gangi ekki stundinni lengur og það þurfi að skoða fjárlagafrumvarpið upp á nýtt.

Það virðist vera mikil samstaða um það. Ég fagna því að formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, skuli ætla Landspítalanum 12–13 milljarða. Ég held að við ættum að hjálpa henni við að uppfylla það loforð á næstu árum. Það er ljóst, eins og hefur komið fram í máli (Gripið fram í: Strax.) þingmanna, að þörfin er um 3 milljarðar á ári. Forstjóri Landspítalans, Páll Matthíasson, og María Heimisdóttir sem er þar í fjármálunum, voru á fundi velferðarnefndar áðan og þau töluðu einmitt um að 3,3 milljarði vanti.

Nú þurfum við að leggjast á eitt og hjálpa ríkisstjórninni við að laga þessi fjárlög sín og benda henni á hluti sem hægt er að gera, eins og að skoða tekjuskattsbreytinguna sem breytir ekki neinu fyrir venjulegt fólk en er um 5 milljarðar sem mætti nota alla mín vegna í Landspítalann. Við (Forseti hringir.) skulum finna lausn á þessu saman.