143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

6. mál
[16:59]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég velti fyrir mér hvort inntak þessarar annars mjög góðu þingsályktunartillögu sé ekki fallið um sjálft sig þar sem hætt hefur verið við lengingu fæðingarorlofsins í áföngum í tólf mánuði og átti sú lenging að taka enda árið 2016. En gefum okkur að svo sé ekki.

Gefum okkur að það sé árið 2016 og fæðingarorlofið komið í heilt ár; allir sem í barneignum standa þrá fátt heitar. Þá er ég með ákveðna hugmynd um hvernig hægt væri að framkvæma þá frábæru hugmynd að börn fái pláss á leikskóla að fæðingarorlofi loknu. Í dag er skólakerfið okkar þannig byggt upp að eftir 18 ára skólagöngu hefst hin svokallaða sérhæfing ef stefnt er á háskólanám. Yfir 95% barna á Íslandi eru í okkar góðu leikskólum í að minnsta kosti fjögur ár í dag. Svo taka við tíu ár í grunnskóla og svo taka aftur við fjögur ár í framhaldsskóla og loks sérhæfing ef stefnt er á háskólanám, þ.e. ef iðnmenntun varð ekki fyrir valinu.

Það kostar yfir 300 milljónir að byggja nýjan leikskóla frá grunni, fyrir utan það sem síðan kostar að reka hann. Í fræðunum er oft talað um að skólabygging af þessari stærðargráðu með innri rekstri sé búin að borga sig upp á tveimur til þremur árum. Ef við tökum dæmi af sveitarfélagi — ég þekki eitt ágætlega — þar sem við erum kannski með 300 börn í hverjum árgangi, og hér er verið að tala um í raun að bæta við árgangi á leikskólastigið, þá erum við að tala um að byggja þyrfti fjóra til fimm leikskóla og það er kannski svolítið þungur róður, það kostar á við það að byggja mjög flottan glænýjan grunnskóla.

Hefur hv. þm. Svandís Svavarsdóttir íhugað hvort ekki ætti að skoða það að efla svokallaðar fimm ára deildir í grunnskólunum? Mörg sveitarfélög víðs vegar um landið og á höfuðborgarsvæðinu eru farin að þreifa sig áfram hvað þetta varðar með hinar svokölluðu fimm ára deildir í grunnskólum. Við gætum meira að segja hugsað þetta svolítið róttækt. En að færa grunnskólaaldurinn, skólaskyldu í grunnskóla, úr sex í 16 ára í fimm í 15 ára? Það gæfi öllum þeim leikskólum sem nú þegar eru til staðar svigrúm til að bæta við sig enn yngri börnum. Þá mundi það líka haldast þetta fjögurra ára skólastig sem leikskólinn er í dag í stað þess að fara að bæta í og efla hann í að verða til fimm ára eins og verið er að tala um með þessari þingsályktunartillögu.

Við mundum efla kennslustigið, yngra kennslustigið í grunnskólanum, og krefjast þess að það yrði meira á forsendum leikskóla, efla leikinn og þá flottu kennslufræði sem er í leikskólanum okkar. Og í senn gætum við líka stytt í hinn endann, þ.e. nám undir stúdentspróf, niður í 19 ár án nokkurrar skerðingar, eða sveinsprófs. Með þessu móti færðum við útskriftaraldurinn nær því sem þekkist alls staðar annars staðar í heiminum. Stofnkostnaðurinn yrði lítill, þjónustan mundi stóraukast og sjónum yrði beint að því að stokka upp og efla menntakerfið okkar sem heild.