143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

6. mál
[17:13]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta bil upp á 9–12 mánuði þekki ég vel. Dóttir mín er orðin þriggja og hálfs og sonur minn að verða eins árs. Þetta bil er frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til leikskólapláss býðst og það getur verið erfitt að brúa það. Við fórum til útlanda, konan mín fór í nám og ég var heimavinnandi heimilisfaðir á þeim tíma, gat leyft mér það. Við söfnuðum svolítið skuldum á meðan á móti sem við erum enn þá að greiða niður, það eru einu skuldirnar okkar þannig að við stöndum ekkert illa miðað við flesta landsmenn. Þetta var leiðin sem við fórum.

Það er mikil sókn í þau leikskólapláss sem eru í boði. Ef leikskólaaldurinn er lækkaður niður í eitt ár á móti og orlofið hækkað upp í eitt ár, ef það er leiðin sem er mögulega verið að skoða, eykst þrýstingurinn enn frekar á þau fáu pláss sem eru í boði. Það fá ekki allir pláss eins og staðan er. Í ljósi þess að leikskólaplássið kostar sveitarfélögin líka í kringum 2 millj. kr. á ári, þetta er tala sem ég hef heyrt, það má vera að hún sé ekki alveg rétt, ég á eftir að skoða það en ákvað að grípa hérna orðið og koma inn í þessa umræðu, er það spurning hvort sú nefnd sem lagt er til í þessari þingsályktunartillögu að verði sköpuð gæti tekið inn þær hugmyndir að fjölskyldur fái sendan tékka heim til sín upp á það sem kostar að vera með barnið heima. Fjölskyldurnar geta notað þennan tékka til að greiða fyrir leikskólapláss fyrir krakkana sína og ef upphæðin er 2 milljónir geta það verið 180 þús. kr. á mánuði, og eitthvað lægri upphæð ef kostnaðurinn er minni. Þetta eru samt sem áður miklir peningar sem fólk gæti fengið.

Svo væri fólk frjálst að velja hvort það sendi krakkana sína í leikskóla og greiddi með tékkanum fyrir það eða vera heima með börnunum sínum. Ef þetta væru tvö börn værum við að tala um miklu meiri peninga og þá væri hægt að lækka það við annað barn um helming þannig að þetta væru 180 þús. kr. plús 90 þús. kr., það væru 270 þús. kr. sem tveggja barna fjölskylda fengi. Þetta hefði tvo stóra kosti til viðbótar við þann kost að þetta mundi opna á tækifæri foreldra til að vera lengur heima með börnunum sínum. Þau gætu skipst á eins og ég og konan mín höfum gert þar sem faðirinn getur verið heimavinnandi. Eitt það ánægjulegasta sem ég hef gert var að vera heima með börnunum. Það er mjög náðugur tími, það er hægt að hlusta mikið á hljóðbækur og hafa það virkilega gott.

Annar kostur er að það losnar um leikskólapláss eftir því sem fleiri eru heima hjá börnunum sínum, kannski til þriggja ára aldurs. Kannski mundi annað foreldrið vilja vera heima hálft árið og hitt foreldrið hálft árið. Þá mundi losna um leikskólapláss og minnka þann þrýsting og svo mundi þetta líka minnka atvinnuleysi, fólk mundi velja að vera heima hjá börnunum sínum að einhverju leyti og þar af leiðandi ekki vera úti á vinnumarkaði á þeim tíma. Þá náttúrlega væru fleiri störf í boði fyrir þá sem sækjast eftir þeim.

Þetta býður fólki upp á það að velja sjálft hvernig þessum peningum er varið og það fær tækifæri til að vera meira heima hjá börnunum sínum sem er líklega það heilbrigðasta sem börnum stendur til boða.