143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[12:08]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Kristjáns L. Möllers að hann velti fyrir sér þegar hann ræddi um lóðaverð því verði sem sveitarfélög setja á lóðir, hvort lóðaverð væri svona hátt hjá sveitarfélögunum í ljósi þess að byggingarkostnaður á grunnskólum og leikskólum og annarri grunnþjónustu væri inni í því verði, að það hafi verið sú leið sem farin hafi verið eftir hrun. Ég tel mig geta fullyrt að ekki hefur verið lögð gata hjá sveitarfélögunum eftir hrun. Það gerðist allt löngu fyrir hrun. Hér eru tóm hverfi sem ekki hefur verið byggt í og þar eru til sölu lóðir sem allar hafa verið lækkaðar í verði. Ég held að ég geti fullyrt það.

Það sem hefur aftur á móti gerst og gerðist ef til vill stuttu fyrir hrun áður en hverfin voru byggð var að olíuverð hækkaði mikið. Það fór út í verðlagið og í verðbætur til allra þeirra verktaka sem unnu á þessum lóðum. Lóðaverð hefur lækkað. Ég vil fá að skjóta því að að sum sveitarfélög leggja sig fram um að lækka lóðaverð og bjóða upp á fjölbreytta búsetu eins og fjölbýli og íbúðir og hafa sérmerktar, skilgreindar lóðir fyrir leiguíbúðir. Það gera þó ekki öll sveitarfélög og það er kannski eitthvað sem þarf að skoða frekar.