143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

samstarf við Færeyjar og Grænland vegna fækkunar kvenna á Vestur-Norðurlöndum.

39. mál
[13:45]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna að mörgu leyti tillögu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins. Ég athugaði tölur hér á Íslandi í vikunni og það kom mér svo sem ekkert á óvart að það eru mörg jaðarsvæði á Íslandi þar sem konum hefur fækkað en aftur fjölgað í kauptúnum og kaupstöðum á Suðvesturlandi. Þau áhrif hér sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir lýsti eru því fyrir hendi innan lands. Eins og ég sé það er þetta hluti af spekileka eða fólksflótta eða atgervisflótta, hvað sem við getum kallað þá þróun, og ég held að það byggist á því að atvinnutækifæri fyrir konur eru á ákveðnum svæðum. Það er hart að búa í landi þar sem atvinnutækifæri dreifast ójafnt þannig að mér þykir rétt að nefndin alla vega horfi til þess að athuga ástand innan lands líka.

Herra forseti. Ég lýk hér máli mínu.