143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

bætt lífskjör.

[15:19]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Nú fyrir helgina birtist grein í Fréttablaðinu eftir þá Hreggvið Jónsson, formann Viðskiptaráðs Íslands, og Björgólf Jóhannsson, formann Samtaka atvinnulífsins, sem bar heitið „Leggjumst saman á árarnar og bætum lífskjör“. Þar benda þeir m.a. á að mikil samstaða ríki um það markmið að lífskjör hér á landi verði sambærileg við það sem gerist í nálægum ríkjum. Þeir segja enn fremur að á undanförnum árum hafi Ísland þó færst neðar á alþjóðlegum listum yfir þá mælikvarða sem endurspegla lífskjör. Þeir nefna það líka að í ríkjum þar sem hagsæld er hvað mest er stöðugleiki grundvöllur framfara.

Öll greinin fjallar um mikilvægi samstöðunnar og í því ljósi ber að skoða ósk þessara samtaka og ASÍ til ríkisstjórnarinnar um sameiginlega úttekt á stöðu aðildarviðræðnanna við ESB þar sem þau telja mikilvægt að úttekt sem þessi sé unnin í samstarfi stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og fleiri öflugra hagsmunasamtaka.

Virðulegi forseti. Því spyr ég hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hvort hún sé ekki sammála þessu mati forsvarsmanna atvinnu- og viðskiptalífsins um mikilvægi þessa samráðs — eða er hún á sömu skoðun og hæstv. forsætisráðherra sem sagði á dögunum þegar þessi ósk var borin fram að fulltrúar þessara stærstu hagsmunasamtaka landsins töluðu ekki fyrir stórum hóp?