143. löggjafarþing — 8. fundur,  14. okt. 2013.

lagaumhverfi náttúruverndar.

[15:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Yfirlýsing hæstv. umhverfisráðherra, um afturköllun nýsettra laga um náttúruvernd, brýtur gegn öllum hefðum og venjum í samskiptum þings og framkvæmdarvalds. Hæstv. ráðherra lét ekki einu sinni svo lítið í yfirlýsingu sinni að segja að hann hygðist leggja til við Alþingi að nýsett lög yrðu felld úr gild heldur sagði hann í yfirlýsingunni að hann hefði ákveðið að afturkalla lögin. Ekkert sýnir betur tillitsleysi hæstv. ráðherra gagnvart viðfangsefninu og ekkert sýnir betur virðingarleysi hans gagnvart Alþingi eða gagnvart því verki sem unnið hefur verið við undirbúning náttúruverndarlaga.

Að baki er hvítbók sem unnin var á síðasta kjörtímabili með aðkomu allra sem vildu, ítarlegt umsagnarferli. Að baki eru líka samningar í þinginu, við þinglok, þar sem við mættum öllum athugasemdum stjórnarandstöðu hér í vor, og við gengum frá málum. Það athyglisverða er að hæstv. ráðherra hefur ekki einu sinni haft fyrir því að skilgreina opinberlega, í kjölfar yfirlýsingar sinna, hvaða mál það eru sem raunverulega kalla á að lögin í heild séu dregin til baka frekar en að einstökum þáttum þeirra sé breytt. Eina sem hann hefur nefnt, eftir að hafa verið þráspurður í fjölmiðlum, er að lögin takmarki ferðafrelsi fatlaðra. Þá hefur hann misskilið lögin vegna þess að hann var búinn að gleyma því, eða vissi greinilega ekki af því, að hann hefur sjálfur allar heimildir til að setja sérreglur um ferðafrelsi fatlaðra á hálendinu.

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra sat á síðasta kjörtímabili í þingmannanefnd sem fjallaði um embættisfærslur fyrri ráðherra. Hann taldi sér sæma þá að ákæra aðra fyrir lélega stjórnsýslu. Ég spyr bara: Hvar er virðing þessa manns fyrir meginreglum og grundvallarreglum í samskiptum þings og framkvæmdarvalds?