143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

fríverslunarsamningur Íslands og Kína.

73. mál
[14:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þau viðhorf sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir leggur fram eru grundvallarviðhorf og eiga það skilið að menn ræði þau. Afstaða hennar er fullkomlega lögmæt.

Það má segja að ágreiningur okkar snúist um eftirfarandi ás: Á yfir höfuð að hafa samskipti og eiga viðskipti við ríki sem brjóta mannréttindi? Hv. þingmaður virðist fylgja því sjónarmiði að svo sé ekki og það hefur komið fram áður gagnvart öðrum ríkjum. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég er þeirrar skoðunar að því meiri samskipti og því meiri viðskipti sem við eigum við slík ríki, þeim mun meiri líkur eru á að þau tosist áfram á hinni réttu braut.

Ég rifja það upp fyrir þingheimi að ég hef áður verið sendur í ferðalag sem utanríkisráðherra til að kanna hvort það ætti að slíta stjórnmálasambandi við ríki sem braut mannréttindi mjög harkalega. Meiri hluti utanríkismálanefndar fól mér að kanna hvort ekki væri hægt að bindast alþjóðlegum samtökum um að hætta viðskiptum við Ísrael og slíta við það stjórnmálasambandi, slíta menningarlegum samskiptum, út af framkomu þeirra við Palestínumenn. Auðvitað fór ég eftir því sem þingið vildi. Ég lagðist í leiðangur og talaði við Arababandalagið, við öll Norðurlöndin, ég veit ekki hversu marga utanríkisráðherra, við öll arabaríkin eða mjög mörg þeirra.

Það var einungis eitt ríki sem tók undir þetta, öll ríkin sögðu: Til þess að hafa áhrif á Ísrael eiga menn að hafa samskipti við þá, aldrei að slíta stjórnmálasambandi, ekki hætta viðskiptum. Þetta var niðurstaða sem kom mér dálítið á óvart en þetta var eigi að síður niðurstaðan.

Nákvæmlega sama á við um Kína. Því meiri viðskipti og því meiri samskipti sem við eigum við þá því líklegra er að okkur og öðrum ríkjum takist að hafa áhrif á þá. Það er þess vegna sem ég tel að sú skoðun sem ég fylgi í þessu sé farsælli fyrir okkur, fyrir Kína og ekki síst þá sem eru þolendur brotanna.