143. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka við EES-samninginn.

76. mál
[16:28]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir að vekja þingið af væru blundi gagnvart þessum EES-tilskipunum og allt of þunnskipuðum þingheimi, ég tek líka alveg undir það. Ég vil taka undir það jafnframt að kominn sé tími til að endurskoða EES-samninginn. Nú erum við að innleiða hérna sex tilskipanir eða það er lagt til. Hversu lengi mun þetta ganga?

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur að sjálfsögðu ekki trú á að hægt sé að hreyfa við þessum samningum. Hann vill bara inn í Evrópusambandið. Hann yrði sá síðasti sem við mundum senda til þess að semja. Ef við höfum ekki trú á að við getum breytt einhverjum samningum getum við alveg eins hætt þessu. Samningar eru ekkert eilífir. Við hljótum að geta breytt þeim.

Hvað kosta þessar tilskipanir okkur? Hvað er eftirlitsiðnaðurinn að þenjast út endalaust? Það virðist bara halda áfram.

Ég trúi því að þessar tilskipanir verði skoðaðar betur í nefndinni og þar verði, ég segi nú ekki meiri umræða, það hefur verið talsverð umræða hérna, en ég treysti því að skoðað verði gaumgæfilega þó ekki væri annað en hvort ekki sé hægt að sækja um undanþágur sem við höfum verið allt of lin við. Maður hefur heyrt það eftir á að aðrar þjóðir eins og Norðmenn séu með undanþágur sem við sækjum ekki um. Ég tek undir að það sé kominn tími til að endurskoða þennan samning.