143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

94. mál
[16:19]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Eins og kemur fram í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að þessar tvær stofnanir, þ.e. talsmaður neytenda og Neytendastofa, verði sameinaðar. Ástæðan fyrir því að ég nefndi ekki sérstaklega það sem hv. þingmaður ræddi er sú að rætt hefur verið við talsmann neytenda um starfslok vegna þess að ekki er gert ráð fyrir, eins og kemur fram í frumvarpinu, að fjármagnið sem fylgdi talsmanni neytenda fari inn í nýju stofnunina. Um það hefur verið rætt og það er í vinnslu. Málið hefur verið unnið í góðu samstarfi við talsmann neytenda og hann hefur verið upplýstur um málið á fyrri stigum. Ég hef sjálf átt með honum fundi og málið hefur verið í ágætri sátt við hann enda hefur hann unnið gott og mikilvægt starf, ég tek undir það með hv. þingmanni. Þess vegna töldum við mikilvægt í þessu máli eins og ég vona að þingheimur taki eftir að það er ekki verið að vinna þetta þannig að ákveðið verkefni sé lagt niður heldur er verið að sameina þessi verkefni og talsmaður neytenda var sammála ráðuneytinu um að það væri eðlilegt og rétt að gera það svona. Hvað varðar framtíð hans og fyrirkomulag starfsloka þá er það í vinnslu innan ráðuneytisins.