143. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2013.

viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eign þriðja aðila.

11. mál
[17:17]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um viðbrögð við skuldavanda einstaklinga með lán með veði í eigu þriðja aðila, svonefnd lánsveð. Forseti hefur þegar útlistað það á hvaða þingskjali frumvarpið er að finna. Hér er um að ræða endurflutning á máli frá septemberþingi þannig að ég get tímans vegna út af fyrir sig vísað í þá framsögu sem ég flutti þá. Þá tók hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra til máls sem við reyndar söknum núna og hefði verið ástæða til að hafa til svara einhverja af hæstv. ráðherrum ríkisstjórnar, t.d. hæstv. forsætisráðherra, en hann mun vera með fjarvist og verða það þessa viku þannig að á því er ekki kostur.

Því nefni ég þetta, herra forseti, að ég og væntanlega fleiri erum að verða nokkuð langeyg eftir því að ríkisstjórnin svari til um það hvað hún hyggst gera fyrir þennan hóp. Eða hyggst hún ekkert gera? Það er ástæða til að spyrja m.a. vegna þess að þrátt fyrir hin stórbrotnu kosningaloforð og tillögu til þingsályktunar um að setja hér þau mál í farveg á vorþingi var ekki minnst sérstaklega á þennan hóp sem flestir sem til þekkja eru þó sammála um að hefur legið óbættur hjá garði að nokkru leyti og ekki hafa fundist úrræði til þess að taka á skuldavanda þessa hóps og yfirveðsetningu með sambærilegum hætti og öðrum hefur staðið til boða í gegnum svonefnda 110%-leið.

Ef til vill eru hér einhverjir aðrir til svara af hálfu stjórnarliðsins og að sjálfsögðu er gagnlegt að málið komist áfram til nefndar og til umsagnar o.s.frv., en ég held að það gangi ekki endalaust að hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar á Alþingi geri ekki grein fyrir því hvort þau hyggjast taka eitthvað á vanda þessa hóps.

Frumvarpið er tiltölulega einfalt. Það er til þess að færa ríkinu fullnægjandi lögheimildir til þess að geta efnt fyrir sitt leyti það samkomulag eða þá viljayfirlýsingu sem náðist milli stjórnvalda og lífeyrissjóða á síðastliðnum útmánuðum. Samkomulagið eða viljayfirlýsingin er nú prentuð sem fylgiskjal með frumvarpinu mönnum til hægðarauka og í raun er þar ágæt lýsing á því hvernig grundvöllur er hugsaður fyrir þessum aðgerðum og hvað þarf til til þess að báðir aðilar málsins, þ.e. lífeyrissjóðirnir og ríkið, geti efnt það að sínu leyti. Hér er sá hlutur sem að ríkinu snýr. Í samkomulaginu skuldbatt ríkisstjórn sig til þess að afla nauðsynlegra lagaheimilda þannig að hún gæti efnt samkomulagið að sínu leyti.

Lífeyrissjóðirnir skuldbundu sig til þess að taka málið til afgreiðslu í stjórnum allra lífeyrissjóða sem lánað hafa með veðum eða þar sem lánsveð er að finna og aðilar sammæltust um eðli málsins samkvæmt að hafa samráð við þá aðila sem til þarf, þ.e. Fjármálaeftirlitið, Eftirlitsstofnun EFTA og Samkeppniseftirlitið.

Í grunninn sprettur þessi vandi af því að þegar samkomulag náðist í árslok 2010 um svonefnda 110%-leið var ljóst að það kynni að vera vandkvæðum bundið að ná fram sambærilegri niðurfærslu á yfirveðsettum eignum í þeim tilvikum sem annað tveggja væri til staðar, lánuð veð, veð í eign í eigu þriðja aðila, eða ábyrgðarmenn. Úr því hefur síðan unnist þannig sérstaklega í bankakerfinu að bankarnir hafa smíðað sér leiðir til þess almennt að taka á þessum málum án þess að hægt sé að fullyrða að það hafi í öllum tilvikum leitt til fullrar niðurstöðu í skilningi þess að skuldir á fasteign lántakandans hafi verið færðar niður að 110% miðað við fasteignamat í lok árs 2010, en þó er upplýst að yfirleitt hafi það tekist í þeim tilvikum sem báðir aðilar voru í viðskiptum hjá sama banka, þ.e. sá sem var með lánið og hinn sem lánaði veðið. Þá hafi menn litið á þetta sem eina einingu og fært lánið niður.

Eftir stendur sá vandi að lífeyrissjóðirnir hafa ekki talið sér fært að lögum að færa niður sín lán ef fyrir þeim stæðu trygg veð vegna þess að þá væru þeir að skerða eignir sjóðfélaga sinna sem þeim sé óheimilt að gera.

Lífeyrissjóðirnir voru þeirrar skoðunar að það væri miklum vandkvæðum bundið fyrir þá að taka á sig beinan kostnað af þessari aðgerð, þrátt fyrir að þekkja þó mjög vel vandann og vita hversu tilfinnanlegt það er í mörgum tilvikum ef greiðslubyrðin er að verða óviðráðanleg hjá fólki í þessari stöðu. Það stendur frammi fyrir því að verða þess valdandi ekki bara að missa sína eigin eign, sem er nógu slæmt, heldur að verða til þess að koma óskyldum aðila eða vandabundnum aðila í vandræði og jafnvel svo eignamissi hans varði.

Engu að síður er það svo að rétt eins og lífeyrissjóðirnir færðu sín rök fyrir því og það tókst með góðra manna samstarfi að byggja að ég held fullnægjandi rökstuðning undir þátttöku lífeyrissjóðanna í 110%-leiðinni, þó að í því væri í mörgum tilvikum falin niðurfærsla mögulega innheimtanlegra eigna, þá standa rök til þess að lífeyrissjóðirnir geti einnig vel lagt nokkuð af mörkum hér án þess að það sé á kostnað getu þeirra til að greiða sjóðfélögum lífeyri. Yfir það er farið í greinargerð. Það reyndar kemur einnig fyrir í viljayfirlýsingunni þar sem segja má að þessum röksemdum sé haldið til haga. Niðurstaðan varð jú sú eftir vægast sagt langar og býsna strembnar viðræður stjórnvalda og lífeyrissjóðanna að þeir gætu réttlætt að taka á sig kostnað sem næmi á bilinu 10–15% af niðurfærslu lánanna, varlega áætlað að ríkið bæri 88% kostnaðarins en lífeyrissjóðirnir 12.

Sökum þess að lífeyrissjóðirnir geta metið samlegðaráhrif þessara aðgerða til verulegs ávinnings, rétt eins og þeir gerðu og aðilar gátu gert í 110%-leiðinni þar sem menn tóku höndum saman og allir njóta góðs af framlagi hinna, munu lífeyrissjóðirnir auðvitað njóta verulega góðs af því ef ríkið tekur á sig drjúgan hluta kostnaðarins við niðurfærslu lána á hinum yfirveðsettu eignum, gæði eignasafnsins sem eftir stendur batnar og greiðslugetan og væntanlega greiðsluvilji skuldarans vex. Það dregur úr líkum á kostnaðarsömum innheimtu- og aðfararaðgerðum hjá lífeyrissjóðunum sem þeir mundu óumflýjanlega í einhverjum tilvikum ella verða að ráðast í ef þeir ætluðu að elta til enda kröfur sínar og ganga að veðum sem á bak við þær standa.

Bankarnir meta það svo að kostnaður sem þeir lendi gjarnan í við að yfirtaka eignir sé oft upp í um eða yfir 20% af verðmæti viðkomandi eignar. Þegar allt er lagt saman; kostnaðurinn við aðgerðina, það að halda eignina, koma henni kannski aftur í söluvænlegt horf og selja hana, þá fylgir því að sjálfsögðu mikill kostnaður. Er þá ekki talað um hina dapurlegu hlið sem snýr að því að fólk missir þá eignir sínar og lífeyrissjóðir þurfa að standa í því að taka þær.

Á grundvelli þessa reyndu menn eftir bestu getu að nálgast það hvar þessi mörk gætu legið að meðaltali yfir eignasafnið sem tæki niðurfærslu og eftir langar og strangar viðræður og heilmikla útreikninga varð ramminn þessi.

Endanlega yrði það metið þegar aðgerðin hefði farið fram og menn hefðu betur séð inn í eignasöfnin sem undir liggja hver nákvæmlega þátttaka lífeyrissjóðanna yrði, en hún yrði innan rammans 10–15%, aldrei meira en 15, aldrei minna en 10, varlega áætlað kannski þessi 88:12% sem ég nefndi hér.

Heyrst hafa að sjálfsögðu þau sjónarmið að þarna sé um of lágt hlutfall hjá lífeyrissjóðunum að ræða. Hér var nefnt í umræðunni í september: „Á ekki að fara aftur í viðræður við lífeyrissjóðina og reyna að fá þá til að taka á sig hærri hluta kostnaðarins?“

Ég verð að leyfa mér að halda því fram að það sé nánast tilgangslaust. Ég hef enga trú á því að við kæmumst lengra en u.þ.b. hingað. Ég minni á að þessar viðræður tóku u.þ.b. ár, þær voru langar og strangar og kom hópur ráðherra að þessum samskiptum af hálfu ríkisins þannig að lagður var fullur þungi í það af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar að reyna að ná lífeyrissjóðunum eins langt á móti ríkinu í þessu og mögulegt var.

Ég lít svo á að Alþingi þurfi að sjálfsögðu að taka afstöðu til eftirfarandi: Vill það færa framkvæmdarvaldinu lögheimildir til þess að það geti efnt þetta samkomulag eða ekki? Æskilegt hefði verið að sjálfsögðu að núverandi ríkisstjórn hefði tekið skýra afstöðu í þessum efnum. Það virðist hún ekki hafa gert. Hæstv. fjármálaráðherra talaði á óljósum nótum þegar hann ræddi hér málin í september um það hvað ríkisstjórnin hygðist fyrir gagnvart þessum hópi sérstaklega. Þá er það Alþingis eftir atvikum að taka af skarið. Ég tel að það væri eiginlega versti kosturinn af öllum að láta þetta liggja einhvern veginn afvelta hér. Það verður að fást á hreint: Er vilji til þess? Er meiri hluti fyrir því að klára þessa aðgerð gagnvart lánsveðshópnum? Beðið er eftir því að í þetta fáist botn. Auðvitað er málið búið að dragast óhemjulengi. Fólkið hefur á meðan verið í þessari stöðu. Það á að vísu að koma til móts við hópinn með því að gera honum kleift að sækja um sérstaka lánsveðsvaxtabætur sem greiddar verða út á næsta ári upp á allt að 500 millj. kr. Það er að sjálfsögðu eingöngu til þess að horfast í augu við kostnaðinn sem fólk hefur borið af þessari yfirveðsetningu samanborið við aðra allt frá árinu 2011. En það er veruleikinn að þegar leið á árið 2011 fór fólk að fá niðurfærslurnar samkvæmt 110%-leiðinni í stórum stíl. Aðrir, þeir sem voru með gjaldeyrislán, hafa auðvitað fengið sína réttarbót í gegnum dómstólana. En þarna situr eftir hópur sem er í afar erfiðri stöðu félagslega og efnahagslega og er ekki í færum til þess að grípa til ráðstafana af því tagi sem mönnum eru auðveldari nú eftir hina almennu 110% niðurfærslu, þ.e. að sitja ekki lengur í þannig yfirveðsettum eignum að menn geti ekki hreyft sig lönd eða strönd.

Það er rétt að minna á að annar megintilgangur 110%-leiðarinnar var ekki bara að færa niður skuldirnar sem slíkar og létta þar með örlítið greiðslubyrðina, heldur var það líka að losa fólk úr þessari stöðu að vera í svo yfirveðsettum eignum að ef menn vildu selja, minnka við sig eða grípa til einhverra slíkra ráða, gætu þeir það án þess að fara með miklar skuldir umfram verðmæti eignarinnar sem undir þeim stóð. 110% voru miðuð við fasteigna- eða markaðsverð eftir því hvaða útfærsla var valin. Það var að vísu mismunandi, því miður varð það í sumum tilvikum bara fasteignamat en í öðrum tilvikum markaðsverð í árslok 2010 m.a. í ljósi þess að ljóst var að fasteignamat mundi hækka um nálægt 10% á árinu 2011. Í reynd var 110%-leiðin nokkurn veginn að 100%-leið strax upp úr áramótum 2010/2011. Það má færa fyrir því rök að með hækkun fasteignaverðs síðan sé hún orðin að 95%-leið eða eitthvað þar um bil. Þá er að sjálfsögðu komin upp allt önnur staða hjá fólki sem þó er með þetta gríðarlega þunga skuldabyrði að það er ekki lengur í yfirveðsettri eign og það getur losað um stöðuna án þess að labba frá málinu með umtalsverðar skuldir og án nokkurrar eignar.

En lánsveðshópurinn á þess ekki kost. Hann situr áfram fastur í bullandi yfirveðsetningu sem nemur samtals oft 130–150% af verðmæti eignarinnar sem skuldarinn á þegar maður leggur saman veðin sem þar hvíla og hin sem lánuð eru.

Úr þeirri stöðu viljum við að sjálfsögðu losa hópinn og er það að sjálfsögðu jafnræðis- og réttlætismál að hann fái að einhverju leyti sambærilega úrlausn sinna mála og aðrir hafa fengið þegar maður nálgast málið frá þessum sjónarhóli. Auðvitað eru þeir til sem segja bara: Þetta fólk vissi hvað það gerði og fólkið sem lánaði veðin vissi hvað það gerði og menn verða bara að horfast í augu við sjálfa sig. Það breytir hins vegar ekki stöðunni fyrir þá sem í hlut eiga þótt einhverjir kunni að taka þá kaldranalegu nálgun. Hún er mjög óþægileg, samanber það sem ég sagði áður, að menn leggja ýmislegt á sig áður en þeir láta foreldra sína, systkini, frændfólk eða vini lenda í þeim vanda að lán sem þau hafa lánað veð fyrir séu í vanskilum og að það komi til innheimtuaðgerða o.s.frv.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lengja mál mitt um þetta. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu farið málið til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Ég geri ráð fyrir því að ég hafi lagt það til í september þannig að ég geri það bara aftur, enda er málið vel komið þar. Ég bind vonir við að nefndin og síðan Alþingi taki afstöðu til málsins.

Nú eru boðaðir heilmiklir atburðir í skuldamálum heimilanna í nóvember. Kannski verðum við einhvers vísari þá, aðrir segja að vísu ekki fyrr en upp úr áramótum. Nú erum við í nokkurri þoku með það, a.m.k. stjórnarandstæðingar, hvernig þau mál standa nákvæmlega. Kannski eru stjórnarliðar sjálfir eitthvað tvísaga um það hvernig þetta ferli er. En ég minni bara á að málefni lánsveðshópsins voru ekkert undir samkvæmt þeirri þingsályktunartillögu sem unnið er eftir þannig að það er ekki endilega tryggt að þær nefndir og þeir sérfræðingar sem vinna að þessum málum á vegum ríkisstjórnar séu yfir höfuð að huga að þessu máli, enda yrði úrlausn þessa hóps á einhverjum sambærilegum nótum og 110%-leiðin færði öðrum, algerlega ótengd því síðan hvort menn vildu svo fara í enn frekari niðurfærslu skulda. Þá kemur að sjálfsögðu upp það álitamál sem hér hefur verið á dagskrá innan þessa salar hvort fyrri aðgerðir ættu í einhverjum mæli að dragast frá þeim o.s.frv., það er bara sjálfstætt mál. Ég get með engu móti séð annað en að það yrði alltaf betra að þessi aðgerð hefði farið fram og lægi fyrir og að hópurinn væri jafn settur öðrum áður en kæmi að einhverju sem yrði stærra og meira og síðar.