143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

varðveisla handritanna í Þjóðmenningarhúsinu.

[10:55]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það lá auðvitað fyrir þó að tekin hefði verið ákvörðun um að byggja Hús íslenskra fræða að ekki hefði með nokkru móti verið hægt að klára þá byggingu á þessu afmælisári þannig að það hefði ekki breytt neinu hvað þetta varðar.

Hitt er það að auðvitað er rétt að skoða alla möguleika sem við höfum miðað við núverandi húsakost til að sýna handritin. Þessi staða er nú uppi í Þjóðmenningarhúsinu. Þar er ekki nægileg öryggisgæsla og við það verðum við bara að una. Þá er spurning hvaða aðrar leiðir forstöðumenn Árnastofnunar hafa til að sýna handritin, m.a. á þessum afmælisviðburðum, þannig að gestir okkar sem koma hingað á hátíðina til að skoða og almenningur hafi aðgengi að þeim. Ég er svo sem ekki neinn sérfræðingur í því og get ekki svarað því hér einn, tveir og þrír hvernig best verður að því staðið. Aðrir eru til þess miklu bærari.

Stefna ríkisstjórnarinnar liggur alveg ljós fyrir í þessum málum. (Forseti hringir.) Það er auðvitað einlægur vilji okkar að gera sem best þegar kemur að handritunum og sögu þessarar þjóðar. Allt helgast þetta síðan af þeim fjármunum sem við höfum milli handanna.