143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

8. mál
[11:46]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, og hefði svo sannarlega viljað hafa hæstv. forsætisráðherra í salnum í þessum umræðum. Flutningsmenn tillögunnar eru ásamt mér hv. þingmenn Jón Þór Ólafsson og Helgi Hrafn Gunnarsson. Tillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fara beri að skýrum vilja meiri hluta kjósenda, eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 og skorar á forsætisráðherra að hafa þessa ályktun að leiðarljósi við þá endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins sem fyrirhuguð er á yfirstandandi kjörtímabili. Í þeirri vinnu verði tekið fullt tillit til hins mikla starfs sem fólkið í landinu, stjórnlagaráð og Alþingi lögðu sameiginlega af mörkum við endurskoðun stjórnarskrárinnar.“

Ég ætla að grípa í þessa örstuttu greinargerð:

„Stjórnskipun Íslands byggist á þeirri grunnhugmynd vestrænna lýðræðisríkja að allt ríkisvald sé sprottið frá þjóðinni og að þjóðin sé stjórnarskrárgjafinn. Afdráttarlaus vilji kjósenda varðandi nýja stjórnarskrá liggur fyrir í veigamiklum atriðum eftir ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi boðaði til og haldin var 20. október 2012.

Alþingi býr sem stendur við fordæmalaust vantraust almennings í landinu. Í skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um traust til Alþingis, sem gefin var út í maí 2013, kemur fram að mikill meiri hluti svarenda taldi að það mundi auka traust þeirra til Alþingis mikið eða nokkuð mikið ef starf þess væri markvissara, eða um 93%. Þegar Alþingi spyr þjóðina álits í jafnveigamiklu máli og gert var 20. október 2012 er ekki óeðlilegt að Alþingi lýsi því yfir að taka skuli mark á niðurstöðunni og hlíta henni, annað er ómarkvisst.

Nú liggur fyrir að forsætisráðherra mun skipa í nýja stjórnarskrárnefnd og hefur hann þegar óskað eftir tilnefningum allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi. Í minnisblaði frá forsætisráðherra segir meðal annars:

„Hliðsjón verður höfð af vinnu undanfarinna ára um efnið, meðal annars tillögum stjórnlagaráðs og stjórnlaganefndar, niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu og starfi stjórnarskrárnefndar sem starfaði 2005–2007. Þá verði nýlegar stjórnarskrárbreytingar í nágrannalöndum einnig hafðar til hliðsjónar, sem og önnur þróun í stjórnarskrármálum á alþjóðavettvangi. Nefndin gerir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis grein fyrir framvindu nefndarstarfsins eftir því sem eðlilegt er. Óskað verður eftir því að vinnu nefndarinnar ljúki tímanlega svo að hægt sé að samþykkja frumvarp á yfirstandandi kjörtímabili en unnt er að áfangaskipta vinnunni eftir því sem henta þykir. Nefndin ákveður að öðru leyti sjálf verklag sitt.“

Flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu fagna vilja forsætisráðherra til að halda áfram og ljúka farsællega starfi við endurskoðun stjórnarskrárinnar og vilja með þessari tillögu til þingsályktunar gefa þingmönnum tækifæri til þess að veita áframhaldandi ferli aukið vægi með því að lýsa því yfir af hálfu Alþingis að fara skuli að vilja kjósenda eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 og taka fullt tillit til þess starfs sem fram fór á liðnu kjörtímabili af hálfu stjórnlaganefndar, þjóðfundar, stjórnlagaráðs og Alþingis.“

Það veldur mér miklum vonbrigðum hve fáir þingmenn eru hér í salnum, mjög miklum, og ég vil þakka þeim þingmönnum sem þó sitja hér inni. Auðvitað er enginn ráðherra hér en það er svo sem ekki neitt nýtt, forseti, og mælist ég til þess að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að ráðherrar séu hér oftar.

Þann 20. október 2012 fór fram merkileg þjóðaratkvæðagreiðsla hérlendis. Þar fékk þjóðin tækifæri til að tjá hug sinn um það hvort hún vildi nýja stjórnarskrá sem hafði farið í gegnum ferli sem þykir einstakt á heimsmælikvarða. Nú síðast í þessari viku lauk forseti Evrópuráðsþingsins — sem er nota bene ekki Evrópuþingið, heldur það þing sem allar Evrópuþjóðir eiga fulltrúa að, þar á meðal við — lofsorði á þetta ferli og hrósaði núverandi hæstv. forseta Alþingis fyrir framgöngu íslenskra stjórnvalda í þessu ferli, fyrir að hafa skapað ferli með lofsverðri aðkomu almennings, ferli sem margar aðrar þjóðir öfunda okkur af og halda að sé enn í gangi.

Mér fannst merkilegt að enginn við borðið var tilbúinn að leiðrétta forseta Evrópuráðsþingsins eftir ræðu hans og segja honum að ekki standi til að styðjast við drögin að stjórnarskránni hinni nýrri, þó beindi hann orðum sínum að forustu núverandi þings. Það hlýtur að tákna að enn sé von og enn sé vilji hjá þinginu til að tryggja vilja meiri hluta landsmanna, sem vildi að ný stjórnarskrá grundvallaðist á þeim tillögum sem frá stjórnlagaráði komu. Ef svo er ekki óska ég eftir því að þingmenn meiri hlutans greini frá því í þessum umræðum hver sýn þeirra er á áframhald málsins. Nú veit ég fyrir víst að sú nefnd sem á að halda áfram vinnu við nýja stjórnarskrá hefur enn ekki komið saman en hæstv. forsætisráðherra hlýtur að sjá tilefni til þess að þrýsta á að nefndin hefji störf sín án tafar.

Forseti. Það eru margar ástæður fyrir því að þessu merkilega ferli var frestað og jafnvel slegið af undir lok síðasta þings. Sú uppgjöf er mörgum enn vonbrigðakökkur í hálsi. Ég held að meginástæða þess liggi hér hjá okkur á þinginu. Það hefur verið mikil tregða við að breyta stjórnarskránni og margir telja það eingöngu vera í verkahring þingsins að breyta henni.

Ég bauð mig fyrst til þjónustuhlutverks á Alþingi árið 2009 undir þeim formerkjum að aðstoða við að gera það að veruleika að þjóðin fengi aðkomu við gerð nýrrar stjórnarskrár og jafnframt lokaorðið. Ég skil ekki af hverju í ósköpunum ákveðið var að setja stjórnarskrána hina nýrri í þjóðaratkvæðagreiðslu og ætla svo bara að hunsa þann skýra vilja sem þar kom fram. Ég ætla ekki að reifa öll þau ljón sem hafa staðið í vegi fyrir því að ný stjórnarskrá fengi afgreiðslu á Alþingi á síðasta kjörtímabili en vil hvetja þá sem eiga sæti á Alþingi núna að auðsýna þá lýðræðisást að tryggja að áfram verði haldið með ferlið á yfirstandandi þingi.

Mig langar að lesa fyrir þá nýju fulltrúa sem hér eiga sæti bréfið frá stjórnlagaráði sem það afhenti forseta Alþingis þann 29. júlí 2011 — það afhenti forseta þingsins þetta ásamt tillögum að nýrri stjórnarskrá. Í þessu bréfi kristallast þetta merkilega ferli sem mér hefur verið tíðrætt um, með leyfi forseta:

„Með ályktun Alþingis frá 24. mars 2011 var stjórnlagaráði falið að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Þær tillögur liggja nú fyrir í formi frumvarps til nýrrar stjórnarskrár og afhendist það forseta Alþingis hér með. Frumvarpið var samþykkt einróma með atkvæðum allra ráðsfulltrúa á síðasta fundi ráðsins sem lauk miðvikudaginn 27. júlí síðastliðinn.

Stjórnlagaráði var meðal annars falið að fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar, sem kosin var af Alþingi 16. júní 2010. Hlutverk stjórnlaganefndar var að undirbúa þau verkefni sem síðar voru falin stjórnlagaráði, meðal annars með því að halda þjóðfund um stjórnarskrármálefni og safna gögnum og upplýsingum um þau og leggja fram hugmyndir um breytingar á stjórnarskránni. Stjórnlaganefnd hélt þjóðfund 6. nóvember 2010, þar sem þúsund þátttakendur voru valdir með úrtaki úr þjóðskrá, og afhenti nefndin stjórnlagaráði skýrslu sína og tillögur á fyrsta fundi ráðsins, 6. apríl 2011. Frumvarp stjórnlagaráðs er því afrakstur mikillar vinnu á löngum ferli.

Fulltrúar í stjórnlagaráði eru fjölbreyttur hópur með ólíkar skoðanir, menntun og reynslu. Hver og einn hefur tekið afstöðu til mála á eigin forsendum. Almenningur hefur átt greiðan aðgang að verkinu, fyrst og fremst með athugasemdum og innsendum erindum á vefsetri ráðsins. Þannig hefur varðveist sú hugmynd að almenningur kæmi að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Frumvarp stjórnlagaráðs hefur því mótast smám saman í samræðum milli fulltrúa innbyrðis og opnum skoðanaskiptum við samfélagið. Stjórnlagaráð afhendir nú þingi og þjóð frumvarpið. Skýringar með frumvarpinu verða afhentar Alþingi í næstu viku og endurspegla umræðuna innan ráðs og utan.

Stjórnlagaráð væntir þess að sú opna umræða sem fram hefur farið á undanförnum mánuðum um stjórnarskrármál haldi áfram. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að breytingar á stjórnarskrá séu framvegis bornar undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. Fulltrúar í stjórnlagaráði eru einhuga um að veita beri landsmönnum öllum færi á að greiða atkvæði um nýja stjórnarskrá áður en Alþingi afgreiðir frumvarpið endanlega. Komi fram hugmyndir um breytingar á frumvarpi stjórnlagaráðs lýsa fulltrúar í stjórnlagaráði sig reiðubúna til að koma aftur að málinu áður en þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram.“

Í þessu bréfi stjórnlagaráðs kristallast ferlið sem ég er svo stolt af. Í aðfaraorðunum kristallast síðan sá samfélagsandi sem gerði mig jafnframt stolta og jafnvel meira stolta. Ég ætla að fara með þau okkur til upprifjunar, með leyfi forseta:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“

Ég fæ enn gæsahúð þegar ég les þetta upp. Mikið vildi ég óska að við mundum bera gæfu til að gera þetta að samfélagssáttmálanum okkar.

Mig langar að reifa aðeins hvað ef; hvað ef okkur hefði tekist að virða vilja þjóðarinnar sem kristallaðist í þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýja stjórnarskrá þann 20. október í fyrra? Hvernig væri Ísland í dag? Væri það alveg eins, verra eða betra? Ég ætla að rekja hér þau atriði sem ég var hvað spenntust fyrir og sá sem lið í þeirri nýju framtíðarskipan, almenningsvilja lands og þjóðar.

Hvað ef öllum væri tryggður réttur í stjórnarskrá til öruggs lífsviðurværis og félagslegs öryggis? Hvað ef allir hefðu stjórnarskrárvarinn rétt til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu? Hvað ef náttúran okkar og auðlindir nytu stjórnarskrárverndar? Hvað ef alþingismönnum og ráðherrum bæri stjórnskipuleg skylda til að upplýsa um fjárhagslega hagsmuni sína? Hvað ef við alþingismenn fengjum að kjósa þingforseta með auknum meiri hluta og hefðum þannig þingforseta sem nyti trausts alls þingsins? Hvað ef við hefðum lögréttu til að vara okkur við lagasetningu sem fer í bága við stjórnarskrá? Hvað ef minni hluti þingmanna hefði raunveruleg tæki til að veita aðhald og sinna eftirlitshlutverki með ríkisstjórn og framkvæmdarvaldi? Mundum við þá ef til vill sleppa við allt þetta leiðindamálþóf sem er eina tækið sem minni hlutinn hefur í slíkum tilvikum? Hvað ef þjóðin sjálf gæti kallað eftir málskoti og þyrfti ekki að senda bænaskrá til Bessastaða í hvert skipti sem henni ofbýður? Hvað ef þjóðin sjálf gæti lagt fram frumvörp og tillögur til þingsályktunar? Hvað ef forseti Íslands gæti setið að hámarki í þrjú kjörtímabil? Og hvað ef ráðherrar fengju aðeins að sitja tvö? Hvað ef ráðherrum yrði gert að víkja úr þingsæti meðan þeir gegndu ráðherraembætti? Hvað ef ráðherra væri stjórnskipulega skylt að veita Alþingi og þingnefndum allar upplýsingar sem undir hans ráðuneyti heyra og áskilið væri að þær skyldu vera réttar, viðeigandi og fullnægjandi? Hvað ef stjórnarskrá kvæði á um að hæfni og málefnaleg sjónarmið skuli ráða við skipan embættismanna? Hvað ef íbúar hefðu rétt til að kalla eftir atkvæðagreiðslu um málefni sveitarfélags síns? Hvað ef öllum handhöfum ríkisvalds væri gert skylt í stjórnarskrá að virða mannréttindareglur sem eru bindandi fyrir ríkið og að þjóðarrétti og tryggja framkvæmd þeirra og virkni? Hvað ef allir alþjóðlegir mannréttindasamningar sem Ísland er bundið af nytu stjórnarskrárverndar? Hvað ef frelsi fjölmiðla nyti stjórnarskrárverndar? Hvað ef heimildarmenn blaðamanna og afhjúpendur nytu stjórnarskrárverndar? Að lokum spyr ég, forseti: Hvað ef stjórnarskráin okkar kvæði með skýrum hætti á um að allt ríkisvald spretti frá þjóðinni sjálfri?