143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

rannsókn á ákvörðunum stjórnvalda vegna innstæðna Landsbanka Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu.

40. mál
[15:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður gæti gert sér dægrastyttingu úr því að fara í gegnum þingtíðindi frá þessum tíma og þá sæi hann að af hálfu stjórnarþingmanna og hugsanlega fleiri á þeim tíma — og nú er ég að tala um tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks — ræddu menn þetta út frá tveimur nálgunum, annars vegar að fara sænsku leiðina sem fól það í sér að menn mundu eiga þessar eignir mjög lengi, hugsanlega með þeirri niðurstöðu sem Svíar fengu og luku fyrr á þessu ári, 2013. Þeir voru að hreinsa upp síðustu eigurnar og þegar allt var uppteiknað höfðu þeir komið út úr öllu saman, a.m.k. á reikniborðunum, með drjúgum hagnaði. Hins vegar var sú leið að afsetja bankana tiltölulega fljótt með því að koma þeim í hendur kröfuhafa. Á þeim tíma þótti sumum það eftirsóknarvert, m.a. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, og töluðu um það út frá því, og ég skildi það líka þannig þá, að þar með væru þeir komnir í erlenda eigu. Ég taldi og hef lengi talið að það væri heppilegt fyrir bankakerfið að að minnsta kosti einn banki væri í erlendri eigu vegna þess að það mundi tryggja ákveðna samkeppni.

Þetta var áður en að minnsta kosti flestir þingmenn gerðu sér grein fyrir því að það voru til fjármálalegar einingar sem við þekkjum í dag undir skilgreiningunni vogunarsjóðir og síðan hin verri sort af þeim sem menn kalla hrægammasjóði. Ég minnist þess ekki í þeirri umræðu að menn hafi nokkru sinni dregið þá — nema kannski hv. þm. Pétur Blöndal, ég man það ekki — inn í umræðuna, en það var enginn sem gerði sér grein fyrir því að með því að kröfuhafarnir eignuðust bankana kynnu menn að vera, sem enn er þó ekki búið að reyna til þrautar, að setja um háls sér reipi sem hugsanlega gæti breyst í ól sem þrengdi að lífæðinni.