143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Nýlegar fréttir um starfsemi svokallaðs kampavínsklúbbs hér í nágrenni þinghússins, sem er búinn að starfa allt of lengi, valda áhyggjum. Ég fagna framkominni þingsályktunartillögu sem lögð var fram í þarsíðustu viku og vona að hún fái brautargengi. Ég óttast reyndar að hún gangi ekki alveg nógu langt vegna þess að ég heyrði lögmann eigenda þessa staðar segja í fréttum sjónvarps fyrir nokkrum dögum að umræddar stúlkur, sem eru staddar á þessum klúbbi, væru ekki starfsmenn. Það vekur mann til umhugsunar um hvaða stöðu þær hafa. Það vekur einnig upp spurningar um það á hvaða forsendum þær hafa fengið hér landvistarleyfi.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég hef áhyggjur af þessu og þetta vekur með mér grunsemdir um að þarna kunni að vera um að ræða tilraun til mansals. Það er ekki nýtt í þessum bransa.

Því held ég að ekki sé nógu langt gengið í þingsályktunartillögunni sem hér kom fram að ræða um starfsmenn þessara klúbba.

Það hefur komið fram af hálfu eins ágæts hv. þingmanns sem er reyndar fjarverandi að hann hefur efast um forgangsröðun lögreglu. Ég deili ekki þeirri samúð sem hv. þingmaður hefur með kaupendum vændis og ég hef reyndar litla þolinmæði gagnvart þeim. Þess vegna fagna ég forgangsröðun lögreglunnar og ég held að brýnt sé að lögreglan við rannsókn þessa máls fari inn á svið mansals, að það verði gengið úr skugga um að þarna, í þessum svokallaða klúbbi, hafi mansal ekki átt sér stað.