143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Líkt og aðrir jafnaðarmenn trúi ég því að við eigum að leggja áherslu á verðmætasköpun til að efla íslenskt samfélag, styrkja velferðarkerfið og skapa vel launuð og áhugaverð störf á Íslandi. Þess vegna lagði ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð áherslu á að styrkja meðal annars samkeppnissjóði til að efla verðmætasköpun og rannsóknir til lengri tíma.

Fjárlagafrumvarp núverandi ríkisstjórnar gengur þvert á þá stefnu og ég tel mikilvægt að þingmenn hér í sal geri sér grein fyrir því hvað niðurskurður til samkeppnissjóðanna þýðir. Afleiðingarnar hafa þegar komið fram þó að ekki sé búið að samþykkja frumvarpið og gera að lögum. Þrír prófessorar hafa sagt sig úr Vísinda- og tækniráði enda telja þeir ófært að stefna ráðsins sé mótuð í fjármálaráðuneytinu. Skera á niður framlög til þessara tveggja samkeppnissjóða, Rannsóknasjóðs og Tækniþróunarsjóðs, um 215 milljónir á næsta ári en framlögin verða alls helminguð fram til ársins 2016. Þetta er alvarleg þróun nema það sé stefna núverandi stjórnvalda að gera Ísland eingöngu að hráefnisframleiðanda.

Það er líka eðlilegt að líta til þess að formaður BHM, Guðlaug Kristjánsdóttir, tjáði sig í fyrradag í Ríkisútvarpinu um áhyggjur af því að ekki hefði dregið nægilega úr atvinnuleysi háskólamenntaðs fólks miðað við aðra hópa og að ljóst væri að leita þyrfti að allra leiða til þess að (Forseti hringir.) skapa störf fyrir háskólamenntað fólk. Stefna ríkisstjórnarinnar er þvert á móti að draga úr möguleikum vel menntaðs fólks til að fara í (Forseti hringir.) verðmætaskapandi störf hér á landi.