143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég er upp með mér yfir því að hv. þingmaður skuli beina þessum spurningum til mín. Ég hef ekki komið að mótun byggðastefnunnar, hvorki á þessu þingi né fyrra þingi eða er í því í þeim nefndum sem ég hef starfað í. Aftur á móti hef ég mikinn áhuga á þessum málum og þykir vænt um að fá tækifæri til að ræða málefni brothættra byggða. Ég hef miklar áhyggjur af þeim. Ég veit að hv. þm. Oddný Harðardóttir hefði haft gott af því að vera með okkur þingmönnum Suðurkjördæmis á ferð okkar um Skaftárhrepp um daginn, hitta sveitarstjórnarmenn þar og ræða einmitt þeirra vandamál. Það er sameiginlegt með þessum sveitarfélögum, eins og í Skaftárhreppi, á Raufarhöfn, Breiðdalsvík og í Bíldudal, að lakar internettengingar, símatengingar, skortur á þriggja fasa rafmagni og slíkt stendur þessum byggðum mikið fyrir þrifum. Unga fólkið vill ekki koma heim um helgar vegna þess að það getur ekki tengt tölvuna sína eða sent SMS-skilaboð. Þetta eru stóru og erfiðu málin sem hefði þurft að vinna að.

Ég er tilbúinn að vinna að því ásamt hv. þingmanni að finna fé í þennan málaflokk, það stendur ekki á því, en mér finnst að við þurfum að hafa þrek til þess að forgangsraða fyrst fyrir heilbrigðisþjónustuna, menntunina og velferðina. Svo skulum við taka þetta á eftir, ég er alveg til í það. Ég er tilbúinn að setjast niður með hv. þingmanni ef hún er með tillögur innan fjárlaganna um hvar við getum fundið peninga sem við getum skorið niður til að fara í þennan málaflokk. Það mun ekki standa á því.

Þar er örugglega víða hægt að skera niður, bæði í menningu og annars staðar sem skiptir þá minna máli í augnablikinu meðan við höfum ekki næga peninga.

Ég held að við tökum ekki lán fyrir því sem við þurfum að gera þarna. Við þurfum að eiga þá peninga sjálf.