143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eftir að hafa ferðast um mitt kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, í síðustu viku að ég er miklu bjartsýnni en ég var áður um að ekki verði skorið eins mikið niður á landsbyggðinni, upp á 2,5 milljarða, og kemur fram í fjárlagafrumvarpinu.

Á fundum með sveitarstjórnarmönnum vítt og breitt um kjördæmið var mikill einhugur allra þingmanna um að slíkur niðurskurður mundi ekki eiga sér stað, niðurskurður varðandi jöfnun húshitunarkostnaðar, innanlandsflugið, sóknaráætlun, menningarsamninga, vaxtarsamninga og svo mætti áfram telja, framkvæmdir til vegamála og fyrirhugaða sameiningu heilbrigðisstofnana með 30 starfsmenn eða færri. Hið sama á við um aðrar stofnanir sem eru með færri en 30 starfsmenn, eins og Fjölmenningarsetur. Alls staðar stóð upp úr hjá öllum þingmönnum kjördæmisins, hvar í flokki sem þeir stóðu, að þetta mundi ekki gerast. Ég tala nú ekki um dreifnámið sem var komið á í tíð fyrri ríkisstjórnar á mörgum stöðum í kjördæminu og hafði gengið mjög vel, menn ætluðu að einhenda sér í að í því yrði ekki skorið niður eins og blasir við.

Ég er því frekar bjartsýn á að menn ætli að leggjast á eitt og hætta við þennan mikla niðurskurð á landsbyggðinni upp á 2,5 milljarða. Að minnsta kosti töluðu hv. stjórnarþingmenn þannig og nú reynir á hvaða burði og getu þeir hafa þegar þeir koma aftur inn á hið háa Alþingi með skilaboðin frá flokksmönnum sínum í kjördæminu og fólkinu á landsbyggðinni um að þetta geti ekki gengið, niðurskurður til brothættra byggða eins og var nefnt hér áðan, og að nauðsynlegt væri á að koma sem víðast á framlögum til háhraðatenginga.